Spurt og svarað
Mælavæðing
Fyrst til að ljúka innleiðingu snjallmæla
Við árslok 2024 náðu HS Veitur þeim áfanga að klára snjallmælavæðingu viðskiptavina og voru þar með fyrsta veitufyrirtækið á landsvísu til að ljúka þeirri vegferð.
Snjallvæðing veitukerfa
Snjallmælar eru oft fyrsta skrefið í "snjallþróun" veitukerfa. Snjöll veitukerfi eru byggð ofan á snjallmæla en þá er sjálfvirkni í stjórnun kerfa aukin.
Með snjallmælum skila upplýsingar um raforkunotkun viðskiptavina sér inn í orkureikningakerfið. Því er ekki þörf á heimsóknum álesara til að lesa af mælinum og áætlun orkunotkunar heyrir sögunni til. Viðskiptavinur greiðir þá ætíð fyrir raunnotkun samkvæmt mæli.
Snjallmælar eru mikilvægur hluti veitukerfisins og lykill að nútímalegri þjónustu við viðskiptavini
Áður voru magnhemlar notaði fyrir heita vatnið þar sem viðskiptavinir greiddu fast árgjald eftir því hversu mikið magn hemillinn var stilltur á. Í því fyrirkomulagi var ekki verið að mæla raun notkun. Árið 2014 hófst í raun vegferðin við að skipta út öllum hemlum hjá heimilum og fyrirtækjum og skipt út fyrir svokallaða rennslismæla og lauk þeirri vegferð 2018 . Í því felst að viðskiptavinir greiða fyrir raun notkun og geta fylgst með daglegri notkun á vefsíðu HS Veitna og jafnvel brugðist við ef upp kemur bilun í húskerfum. Við innleiðingu snjallmæla varð mun betri umgengni um jarðhitaauðlindina.
Árið 2015 var tekin ákvörðun um að snjallvæða jafnframt alla rafmagnsmæla fyrirtækisins. HS Veitur voru fyrsta veitufyrirtækið á Íslandi til að hefja slíka vegferð. Á þessum tíma var starfsfólk í vinnu við að ganga í hús og lesa af öllum rafmagnsmælum og voru að sinna ríflega 72 þúsund álestrum á ári. Snjallmælarnir skila daglegum álestri og notkun í klukkustunda upplausn og gera þannig viðskiptavinum kleift að fylgjast betur með notkun. Snjallmælar stuðla þannig að bættri orkunýtni með upplýstari notendum. Með nýjum lausnum á markaði gera snjallmælarnir sem dæmi raforkusölum kleift að bjóða viðskiptavinum mismunandi verð eftir tíma sólahrings. Toppálag er áskorun í dreifikerfum og með því að búa til hvata til að orkan sé notuð með jafnari hætti yfir sólarhringinn getur það dregið úr fjárfestingum í dreifikerfinu til lengri tíma litið þar sem kerfin þurfa almennt að vera hönnuð til að anna toppálagi, sem jafnframt skilar hagræði fyrir viðskiptavini. HS Veitur hafa nú lokið snjallmælavæðingunni, fyrst veitufyrirtækja.
Gæðaeftirlit
Ásamt því að safna upplýsingum um notkun safna mælarnir einnig ýmsum upplýsingum er snúa að gæðum afhendingar hjá HS Veitum til viðskiptavinar. Má sem dæmi nefna:
- Spennu á fösum í rafmagninu við mæli
- Hitastig á hitaveituvatni á afhendingarstað
Mælarnir láta einnig vita ef átt er við þá ásamt því að rennslismælarnir láta vita ef óeðlilegt rennsli verður um mælirinn eða rafhlaða mælis er að tæmast. Þessar upplýsingar nýtast okkur til að bæta þjónustu við viðskiptavini og stuðla að betri gæðum þeirra afurða sem við afhendum
Öryggi samskipta
Allir snjallmælar byggja á þeirri tækni að gögnin frá þeim fara dulkóðuð frá mæli að söfnunarhugbúnaði og þarf hugbúnaðurinn að hafa dulkóðunar lykla („encryption keys“ ) til að geta lesið gagnapakkann frá mælinum og vistað niður upplýsingarnar sem honum fylgja.
Mælaframleiðendurnir útbúa þessa lykla við framleiðslu á mælinum og senda lykil fyrir hvern mæli sem við kaupum. Þannig geta kerfi okkar ein haft samskipti við viðkomandi mæli en ekki aðrir aðilar eða aðrar veitur í nágrenninu með sambærilegan búnað.
Inn á Mínum Síðum er hægt að fylgjast með notkun niður á dag og klukkustund (á við raforkumæla). Því er hægt að fylgjast með breytingum á notkun heimilisins ef til dæmis nýtt orkufrekt heimilistæki er keypt ( þurrkari, frystiskápur, rafmagnsbíll eða annað slíkt ).
Hægt er að sjá frekari upplýsingar um samskipti safnstöðvanna við mælana hér.
Samantekt á ávinningi af snjallmælum
- Ekki þörf á heimsóknum álesara til að lesa stöðu mælis
- Upplýsingar um notkun skrást rafrænt, oftast með klukkutíma upplausn
- Raunreikningar í stað áætlunarreikninga
- Upplýstir viðskiptavinir, minna álag á þjónustuver
- Einfaldara að framkvæma flutninga
- Fljótlegra og einfaldara innheimtuferli vegna fjarlokana á veitum
- Upplýsingar um straumrof fást strax
- Vöktun á afhendingargæðum
- Ástands og bilanagreining
- Möguleg verðstýring, til að hafa áhrif á notkunarhegðun
- Möguleg þátttaka í reglun raforkukerfisins með rafbílum, rafhlöðum eða orkuframleiðslu
Mínar síður
Á Mínum Síðum má nálgast upplýsingar um viðskipti þín við HS Veitur. Þar er meðal annars hægt að skoða reikninga og fylgjast með notkun á veitum dag fyrir dag.