Starfskjarastefna

Markmið
- Markmið HS Veitna hf. er að vera samkeppnishæf og geta ráðið til sín framúrskarandi starfsfólk í þeim tilgangi að tryggja áframhaldandi vöxt og velgengni félagsins.
- Starfskjarastefnan nær til helstu grundvallaratriða í starfs- og launakjörum stjórnarmanna, æðstu stjórnenda og annarra starfsmanna félagsins. Við ákvörðun um starfskjör skal horft til ábyrgðar og árangurs og gætt að jafnlaunasjónarmiðum. Stefnan skal ekki hvetja til óhóflegrar áhættusækni.
- Stefnan er liður í að gæta langtímahagsmuna eigenda félagsins, starfsfólks, viðskiptavina og annarra hagsmunaaðila með skipulegum, einföldum og gegnsæjum hætti.
Starfskjör stjórnar
- Stjórnarmönnum HS Veitna hf. skulu greidd laun skv. ákvörðun aðalfundar félagsins ár hvert.
Starfskjör stjórnenda
- Stjórn gerir skriflegan ráðningarsamning við forstjóra HS Veitna hf. Í honum skal gera annars grein fyrir föstum launum, árangurstengdum greiðslum, lífeyrisréttindum, orlofi, öðrum hlunnindum og uppsagnarfresti, svo og, eftir atvikum, eftirlaunaréttindum og greiðslum við starfslok.
- Forstjóri gerir skriflega ráðningarsamninga við aðra stjórnendur félagsins og semur um kjör þeirra skv. starfskjarastefnu þessari og kjarasamningum.
- Við ákvörðun starfskjara skulu stjórn og forstjóri gæta þess að starfskjör stjórnenda taki mið af samræmingu starfskjara innan félagsins.
Árangurstengdar greiðslur
- Félagið getur veitt stjórnendum og starfsmönnum árangurstengda kaupauka sem tengjast árangri félagsins í heild og/eða árangri einstakra deilda eða starfsmanna. Slík breytileg laun, önnur en föst laun, skulu vera í eðlilegu hlutfalli við laun viðkomandi og skulu ekki vera hærri en sem nemur einum mánaðarlaunum á ári.
- Félagið áskilur sér rétt til að krefjast endurgreiðslur breytilegra launa ef í ljós kemur að árangursmarkmiðum tengdum greiðslunum var náð með misgjörðum eða misbeitingu.
Ýmis starfskjör
- Heimilt er að veita stjórnendum og starfsmönnum afnot af búnaði sem nýtist og tengist starfi viðkomandi, s.s. farsíma, fartölvu og nettengingu á heimili vegna vinnu.
- Stjórn getur veitt stjórnendum bifreiðar til afnota í starfi.
- Félagið greiðir ekki viðbótargreiðslur, þ.e. umfram skyldur félagsins skv. lögum og kjarasamningum, vegna séreignarlífeyrissparnaðar stjórnenda né starfsmanna nema með sérstakri heimild stjórnar.
Starfslok
- Það er stefna félagsins að gera ekki sérstaka starfslokasamninga við stjórnendur né starfsmenn félagsins umfram skyldur félagsins skv. lögum og kjarasamningum.
- Forstjóra félagsins er þó heimilt að gera samninga um starfslok við stjórnendur og starfsmenn þjóni það hagsmunum félagsins. Slíka samninga skal ávalt bera undir stjórn til samþykktar.
- Gert er ráð fyrir að stjórn geti samþykkt ákvæði í ráðningarsamningum við stjórnendur um allt að 12 mánaða uppsagnarfrest.
Samþykkt, endurskoðun og upplýsingagjöf
- Starfskjarastefna félagsins skal tekin til endurskoðunar ár hvert og borin undir aðalfund félagsins til samþykktar með eða án breytinga.
- Á aðalfundi ber stjórn að gera grein fyrir kjörum æðstu stjórnenda og stjórnarmanna félagsins auk þess að skýra frá framkvæmd starfskjara-stefnunnar. Gera skal árlega grein fyrir launum og öðrum starfskjörum stjórnar og æðstu stjórnenda í ársskýrslu félagsins.
- Starfskjarastefnan er bindandi fyrir stjórn félagsins að því er varðar ákvæði um kaupréttarsamninga og hvers konar samninga eða greiðslur er fylgja þróun verðs á hlutabréfum í félaginu, í samræmi við 79. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995.
- Að öðru leyti er starfskjarastefnan leiðbeinandi fyrir félagið og stjórn þess. Frávik frá starfskjarastefnunni skulu rökstudd sérstaklega í hverju tilviki í gerðarbók félagsstjórnar.
Samþykkt á Aðalfundi
Reykjanesbæ 13. mars 2024