Chat with us, powered by LiveChat
Fara á efnissvæði

Upplýsingagjöf vegna átaks Almannavarna til að fyrirbyggja frostskemmdir í húsum í Grindavík

Almannavarnir hafa ákveðið að setja í gang átak til að fyrirbyggja frostskemmdir í húsum í Grindavík. Til að geta ráðist í verkefnið þurfa Almannavarnir upplýsingar frá HS Veitum um stöðu á dreifikerfis hitaveitu í ljósi náttúruhamfara á svæðinu og hvort heitt vatn berist til fasteigna einstakra viðskiptavina.

almannavarnir.jpg

Átak til að fyrirbyggja frostskemmdir í húsum í Grindavík

Almannavarnir hafa ákveðið að setja í gang átak til að fyrirbyggja frostskemmdir í húsum í Grindavík. Er átakið í samstarfi við Samtök iðnaðarins (SI) og Félags pípulagnarmeistara. Til að geta ráðist í verkefnið þurfa Almannavarnir upplýsingar frá HS Veitum um stöðu á dreifikerfis hitaveitu í ljósi náttúruhamfara á svæðinu og hvort heitt vatn berist til fasteigna einstakra viðskiptavina.

Verulegar skemmdir á innviðum HS Veitna

Í yfirstandandi náttúruhamförum á Reykjanesskaga hafa orðið miklar skemmdir á innviðum HS Veitna í Grindavík. Ekki er hægt að greina nema hluta þeirra skemmda sem hafa orðið og óljóst hvenær að slík greining getur farið fram þannig að betri yfirsýn náist yfir skemmdir á innviðunum.
HS Veitur reka dreifiveitu rafmagns á svæðinu og hitaveitu og ljóst að virkni þessara innviða varða eigendur fasteigna á svæðinu miklu. Hingað til hefur tekist að halda rafmagni og hita á stærstum hluta bæjarins en nýleg dæmi sýna að þar getur brugðið til beggja vona með skömmum fyrirvara. Þá kann að koma til þess að fæðing til þessara innviða bresti alveg vegna frekari jarðskjálfta eða eldsumbrota.

Viðbrögð til þess að varna frekara tjóni

Í þeim tilfellum sem talið er að heitt vatn berist ekki í hús horfa Almannavarnir til þess möguleika að ráðast í aðgerðir í húsum til að varna mögulegum frostskemmdum á lögnum, en skemmdir á þeim geta haft áhrif á fasteignina sjálfa og innbú sem er í húsunum. Með því er verið að reyna að varna frekara tjóni.

Afhending gagna til þriðja aðila

Til þess að þetta megi verða, þurfa HS Veitur að afhenda Almannavörnum og félagi Pípulagningameistara upplýsingar úr viðskiptamannakerfi sínu og þar með gagnagrunnum sem safna og vinna gögn úr mælakerfi fyrirtækisins. Í ljósi þess að um neyðarstig Almannavarna er að ræða og til þess að þessir aðilar geti haft samband við fasteignaeigendur og undirbúið nauðsynleg björgunarstörf þarf að veita upplýsingar sem eru persónugreinanlegar og væru almennt ekki afhentar þriðja aðila.


Með þessum gögnum er hægt að greina hvar notkun hefur fallið niður og þar með að draga þá ályktun að lagnir viðkomandi fasteignar hafi rofnað eða hitt að húseigendur hafi lokað fyrir inntak húsa sinni. Í báðum tilvikum er mikilvægt að bregðast við og reyna að varna frostskemmdum.
Eins og áður segir kann einnig að koma til þess að fæðing til bæjarins bregðist alveg og þá verða ofangreindar aðgerðir mjög brýnar. Einnig er hægt að greina í hvaða húsum er óvenju mikil heitavatnsnotkun sem gæti bent til þess að lagnir innanhúss hafi gefið sig í jarðskjálftum og séu að valda leka, þannig að hægt sé að bregðast við því og reyna að varna frekara tjóni. Þessi gögn verða síðan uppfærð reglulega gagnvart ofangreindum aðilum.

Rétt er að taka fram að gögn eru ekki að berast frá öllum rafmagns- og hitaveitumælum í Grindavík og verið getur að jarðskjálftar hafi skemmt eða valdi rafmagnsleysi snjallmæla í húsum og/eða búnaðinum í bænum sem safnar og sendir gögn úr mælunum. Umræddar upplýsingar eru því byggðar á þeim gögnum sem fyrir liggja á hverjum tíma og gefa ekki með vissu stöðu einstakra húsa né fulla mynd af stöðunni í Grindavík.

Upplýsingar til fasteignareigenda vegna afhendingar persónugreinanlegra gagna

Almannavarnir hafa óskað eftir umræddum upplýsingum til þess að geta ráðist í verkefnið. Umrædd upplýsingagjöf fer fram með vitund og í samræmi við tilmæli Persónuverndar. Það tilkynnist hér með.

Til að upplýsa fasteignaeigendur í Grindavík munu Almannavarnir senda tilkynningu á íbúa.