Chat with us, powered by LiveChat
Fara á efnissvæði

Staða veitukerfa á Suðurnesjum síðla dags 21. nóvember

Eldgos hófst á ný í Sundhnúkagígum seint í gærkvöldi, 20. nóvember.

IMG 3048
Mynd tekin í Njarðvík að morgni 21. nóvember 2024

Neyðarstjórn HS Veitna hefur verið að störfum og fylgist með þróun hraunflæðis og mögulegum áhrifum á afhendingu á heitu vatni og rafmagni eftir að hraun flæddi yfir bæði Njarðvíkuræð HS Orku, sem flytur heitt vatn fyrir Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ og Voga og Svartsengislínu Landsnets.

Staðan síðla dags 21. nóvember er þannig að eldgosið hefur ekki haft áhrif á afhendingu á heitu vatni, köldu vatni eða rafmagni á Suðurnesjum, að undanskyldu um tveggja klukkustunda rafmagnsleysi í Grindavík í morgun.

Vel er fylgst með stöðu Njarðvíkuræðar og allar mælingar benda til þess að hraunflæði hafi enn sem komið er ekki haft áhrif og afhendingargetan því óskert. Standa vonir til að svo verði áfram. Undirbúningur hefur verið í dag með Almannavörnum, HS Orku og nærliggjandi sveitarfélögum varðandi viðbúnað ef til þess kemur að heitt vatn hættir að berast til svæðisins frá Svartsengi.

Varðandi áhrif af rofi á Svartsengislínu Landsnets er dreifikerfi rafmagns í Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ og í Vogum tengt með Suðurnesjalínu 1 og hefur rof á Svartsengislínu því ekki áhrif á afhendingu rafmagns á fyrrgreindum svæðum. Í Grindavík komst rafmagn á frá Reykjanesvirkjun um varaleið en tengingin hefur takmarkaða afhendingargetu sem hefur þau áhrif að nokkrir stórnotendur fyrir utan bæinn eru án rafmagns.  

Neyðarstjórn HS Veitna heldur áfram að fylgjast náið með stöðu mála, viðbragðsáætlanir eru í stöðugri endurskoðun og munum við halda okkar viðskiptavinum áfram upplýstum.