Um kl. 08:46 í morgun varð rafmagnslaust á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum. Ástæðan er sú að þrjár línur Landsnets á Suðurlandi eru bilaðar þ.e. Selfosslína 1, Hellulína 1 og Hvolsvallarlína 1. Búið er að staðsetja bilunina á Selfosslínu 1 og gæti hún verið komin í rekstur eftir 1,5 – 2 klukkustundir en enn er verið að leita að bilunum á hinum tveimur og því óljóst hvenær þær komast í rekstur.
Á meðan þetta ástand varir fáum við ekkert rafmagn frá Landsneti og varafl í Eyjum eru um 5 MW sem við eigum og svo vél frá Landsneti með rösklega 1 MW. Forgangsorkunotkun í Eyjum er nú um 11 MW þannig að ekki er unnt að komast hjá skömmtun og samkvæmt almennum verklagsreglum sem um skammtanir raforku gilda þá er á dagvinnutíma leitast við að halda atvinnulífi gangandi eins og kostur er en frá um kl. 17:00 er áhersla lögð á heimilin og þarna á milli þarf líka að taka tillit til rafhitunar.
Komist Selfosslína 1 í rekstur fljótlega ætti að vera unnt að fullnægja þörfinni fyrir forgangsorku í meginatriðum, komi ekki upp frekari bilanir.
Júlíus Jónsson, forstjóri HS Veitna hf.