Chat with us, powered by LiveChat
Fara á efnissvæði

Óvissustig vegna jarðhræringa

vissustigi almannavarna hefur verið lýst yfir vegna jarðhræringa á Reykjanesi. Landris hófst á föstudaginn 27.október nærri Svartsengi og virðist landið rísa mun hraðar en áður þó dregið hafi úr því.

hs-veitur-logo.png

Óvissustigi almannavarna hefur verið lýst yfir vegna jarðhræringa á Reykjanesi. Landris hófst á föstudaginn 27. október nærri Svartsengi og virðist landið rísa mun hraðar en áður þó dregið hafi úr því. Er þetta í fimmta sinn sem landris mælist norðvestan við Þorbjörn á Reykjanesskaga síðan árið 2020. Landris á sér einnig stað undir Fagradalsfjalli og líkur eru taldar á eldgosi einhvers staðar á þessu svæði, þó ekki liggi fyrir hvenær það gerist.

Neyðarstjórn HS Veitna hefur verið virkjuð til að yfirfara viðbragðsáætlanir og fyrirtækið er í samstarfi við almannavarnir, HS Orku og fleiri aðila vegna mögulegra áhrifa á þjónustu fyrirtækisins.

Heita vatnið sem HS Veitur dreifa til viðskiptavina kemur frá HS Orku í Svartsengi og megnið af kalda vatninu kemur frá Lágum, sem eru mitt á milli Svartsengis og Fitja. Raforkan kemur yfir flutningskerfi Landsnets frá Svartsengi, Reykjanesvirkjun og Suðurnesjalínu. Eldgos eða hraunrennsli á óheppilegum stað getur haft veruleg áhrif á afhendingu þessara nauðsynlegu lífsgæða og því verður það samstarfsverkefni þessara fyrirtækja auk almannavarna að halda þessari grunnþjónustu gangandi eins og mögulegt er. Síðustu eldgos á Reykjanesi hafa hins vegar ekki haft nein áhrif á þjónustu HS Veitna.

HS Veitur eru í viðbragðsstöðu og munu leita leiða til að takmarka áhrif á notendur eins og nokkur er kostur. Fyrirtækið mun upplýsa viðskiptavini verði einhverjar breytingar á stöðunni.

 

Viðskiptavinum er jafnframt bent á að fylgjast með frekari upplýsingum frá almannavörnum, á Facebook https://www.facebook.com/almannavarnir/

 

Nánari upplýsingar frá sérfræðingum Veðurstofunnar er að finna hér Aflögun norðvestan við Þorbjörn heldur áfram | Fréttir | Veðurstofa Íslands (vedur.is)