Þar sem neðansjávarvatnslögnin fyrir neysluvatn er mikið löskuð og lýst hefur verið yfir hættustigi Almannavarna er mikilvægt að undirbúa þann möguleika að lögnin gefi sig. Liður í því er að huga að vatnssparnaði með það að markmiði að neysluvatnsbirgðir dugi sem lengst hætti lögnin að skila vatni til Eyja.
Hitaveitan í Eyjum er svonefnd rafkynnt hitaveita í lokuðu kerfi sem þýðir að heita vatnið sem fer frá kyndistöðinni á að skila sér þangað aftur. Heita vatnið er þannig eingöngu ætlað til húshitunar og til upphitunar neysluvatns með varmaskiptum. Reyndin er hins vegar sú að talsvert af vatni hverfur út úr kerfinu, vegna einhverra leka og rangtenginga, sem veldur því að stöðugt þarf að bæta á það með vatni úr neðansjávarvatnslögninni. Til að sporna gegn þessari sóun er nauðsynlegt að ráðast í skipulagða lekaleit.
Til þess að finna leka á dreifikerfinu hefur verið unnið að því að hitamynda bæinn í þeirri von að finna leka í dreifikerfinu og gera við þá en einnig getur þurft að loka fyrir dreifikerfið á ákveðnum svæðum til að þrýstiprófa lagnir. Hluti af lekaleitinni er að að setja íblöndunarefni í vatnið til að staðsetja leka og rangar tengingar, eins áður hefur verið gert með reglubundnum hætti.
Þá er þekkt að við uppsetningu varmaskipta í húsum hafa stundum verið gerð mistök eða bilanir leiða til þess að vatn er tekið út af lokaða hitaveitukerfinu í stað þess að taka það úr neysluvatnskerfi hússins. Til þess að greina og koma í veg fyrir slíkar rangteningar og/eða bilanir biðla HS Veitur til húseigenda að láta fagaðila yfirfara kerfi sín og að lagfæra mögulegar bilanir og rangtengingar.
Mikilvægt er að vel takist til og að allir leggist á eitt við að greina hvar lekar og rangar tengingar eru staðsettar til að draga úr vatnsnotkun hitaveitunnar, öllum til hagsbóta.