Suðurnes – staðan nokkuð góð
Á Suðurnesjum sér HS Orka um framleiðsluna á heita vatninu og telja þeir að mjög litlar líkur séu á að það komi til skorts á heitu vatni. Í öllum meginatriðum á dreifikerfið svo að anna vatnsþörfinni hjá viðskiptavinum fyrirtækisins
Vestmannaeyjar – staðan nokkuð góð en olíukeyrsla að hluta
Í Vestmannaeyjum er vatnið sem fer til viðskiptavina upphitað ferskvatn í lokuðu hringrásarkerfi. Varminn kemur frá raforku sem nýtt er í varmadælustöð og kyndistöð og er staðan í raforkuframleiðslunni um þessar mundir góð og því nægilegt framboð af raforku. Raforkuna þarf hinsvegar að flytja til Eyja og þá koma upp sérkennileg vandamál sem valda því að nota þarf olíu að hluta til að hita vatnið.
Landsnet hefur tvær gjaldskrár fyrir flutning ótryggrar orku. Ef nýtingin er yfir 4.500 stundum er verðið 0,577 kr./kWst en ef nýtingin er undir 4.500 stundum er verðið 1,52 kr./kWst eða 163% hærra. Hitaveita í Eyjum notar að öðru jöfnu um 50 GWst á ári og því munar um 50 m.kr. á ári á því hvort 4.500 stunda nýtingin næst eða ekki. M.a. vegna þess að Landsvirkjun skerti afhendingu til hitaveitunnar um 5 – 6 GWst í mars og apríl s.l. er mjög tæpt að þetta 4.500 stunda viðmið náist árið 2022. Því er verið að reyna að halda niðri afltoppi í desember með því að nota olíu að hluta en ekki er enn ljóst hvort það tekst.
Óskað var eftir við Landsnet að tekið yrði tillit til áðurnefndrar skerðingar Landsvirkjunar eða toppi í desember sleppt við útreikning nýtingar á árinu en því var hafnað. Hafa því beint af þessum gjaldskrár ástæðum þegar verið brenndir 35.700 lítrar af olíu og olíubrennslu þarf væntanlega að halda áfram til áramóta.
Júlíus Jónsson 19. desember 2022