Páll Erland, forstjóri HS Veitna, tók þátt í upplýsingafundi Almannavarna sem haldinn var í beinu streymi þann 6. nóvember. Fundinum stýrði Víðir Reynisson sviðsstjóri Almannavarna og var tilefnið að miðla upplýsingum og fara yfir þau verkefni sem unnið er að vegna jarðhræringa á Reykjanesi.
Páll fjallaði um þann undirbúning sem hefur átt sér stað miðað við mismunandi sviðsmyndir hjá fyrirtækinu og fór í grófum dráttum yfir þær viðbragðsáætlanir sem unnið er eftir á þeim þjónustusvæðum sem náttúruhamfarir í Svartsengi gætu haft áhrif á. Búið er að setja í gang aðgerðir til að bregðast við rafmagnsleysi og kaldavatnsleysi. Dæmi um það er að fyrstu varaaflsvélarnar eru komnar til Grindavíkur og verið er að undirbúa varavatnsból fyrir Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ. Tók hann fram að stærsta sviðsmyndin sé ef afhending á heitu vatni frá Svartsengi myndi með öllu hætta. Afleiðingarnar yrðu að 30.000 manna samfélag yrði án kyndingar. Hafa HS Veitur og HS Orka unnið í sameiningu að upplýsingaöflun um mögulegar neyðarkyndistöðvar eða aðrar lausnir sem hægt væri að ráðast í. Fyrirtækin eru í samstarfi við stjórnvöld um málið því eðli málsins samkvæmt er hér um neyðaraðgerð vegna náttúruhamfara að ræða sem er utan þess sem hægt er að leggja á einstök fyrirtæki á Suðurnesjum að leysa. Hér sé því um að ræða viðfangsefni á ábyrgð stjórnvalda með vísan til almannavarnasjónarmiða.
Páll mun fara nánar yfir málin á opnum íbúafundi sem haldinn verður í Hljómahöll í Reykjanesbæ miðvikudaginn 8. nóvember kl. 20.