Eldgosið sem hófst þann 16. mars sl. í Sundhnúkagígum á Reykjanesi er enn í gangi og hefur hingað til ekki haft áhrif á innviði HS Veitna. Hraunflæði stefnir nú hins vegar hægt í átt að stofnlögnum fyrir bæði heitt vatn og rafmagn til Grindavíkur og er því undirbúningur hafinn fyrir þá sviðsmynd að hraunið flæði yfir lagnirnar líkt og í eldgosinu sem var við Grindavík í janúar.
Búið er að fergja hitaveitulögnina og vonast er til að þær varnir hafi þau áhrif að lögnin haldi áfram að skila heitu vatni jafnvel þó að hraun flæði yfir hana. Einnig er búið að fergja rafmagnsstrengi sem liggja að loftlínu sem lögð var yfir hraunið úr eldgosinu í janúar. Í dag hófst undirbúningur við að verja möstur loftlínunnar og er áætlað að sú aðgerð muni klárast fyrir dags á morgun, sunnudag. Í kjölfar þess er áætlað að lengja loftlínuna í áttina að Þorbirni.
Vonir standa til að fyrrgreindur undirbúningur verði til þess að jafnvel þó hraun flæði yfir stofnlagnir á næstu sólarhringum eða síðar muni áfram berast bæði heitt vatn og rafmagn til Grindavíkur.
HS Veitur munu áfram fylgjast náið með hraunflæðinu og senda út frekari upplýsingar um gang mála.