HS Veitur unnu að því í gærkvöld í samvinnu við HS Orku og Almannavarnir að kanna hvort mögulegt væri að koma heitu vatni frá Svartsengi til Grindavíkur. Gamla heitavatnslögnin er mikið skemmd og fólst framkvæmdin í því að kanna hvort hægt væri að nota nýja lögn sem búið var að leggja í jörðu en fór einnig undir hraunflæðið. Vel tókst til við að nýta nýju heitavatnslögnina til að koma heitu vatni til Grindavíkur og er heitt vatn nú komið á vesturhluta bæjarins að mestu, en vegna skemmda á dreifikerfi hitaveitu í austari hluta bæjarins var ekki hægt að koma upp hita þar.
Um hádegi hefjast aðgerðir við að reyna að koma heitu vatni og rafmagni á austurhluta bæjarins en vegna hættulegra aðstæðna er verkið unnið með aðstoð sérsveit ríkislögreglustjóra og annarra sérþjálfaðra viðbragðsaðila. Aðgerðirnar miða að því koma innviðum sem eru heilir aftur í virkni en ekki er óhætt að ráðast í viðgerðir á veitukerfunum í bænum á næstunni. Það munu því ekki öll hús í Grindavík fá heitt vatn og rafmagn í þessum aðgerðum og tíminn þarf að leiða í ljós hver árangurinn verður.