Ríkislögreglustjóri hefur ákveðið að lýsa yfir hættustigi Almannavarna vegna skemmda á neysluvatnslögn sem liggur til Vestmannaeyja á grundvelli þess að raunveruleg hætta er á að neysluvatnsögnin rofni alveg. Segir í tilkynningu frá Almannavörnum að „fyrir liggur að umfang skemmda er mikið og alvarlegt. Skemmdirnar ná yfir um 300 metra kafla á lögninni. Á myndum sem teknar hafa verið neðansjávar sést jafnframt að lögnin hefur færst verulega úr stað. Þessi staða gerir möguleika á bráðabirgðaviðgerð erfiða. Eina varanlega lausnin er ný lögn. Mikilvægt er að vinna mat á afleiðingum sem takmarkað rennsli vatns eða algert rof hefði á íbúa og starfsemi í Vestmannaeyjum og hrinda af stað mótvægisaðgerðum til að koma í veg fyrir að neyðarástand skapist“.
Lögnin er í eigu Vestmannaeyjabæjar og sjá HS Veitur um rekstur hennar. Hefur starfsfólk HS Veitna og samstarfsaðilar unnið sleitulaust að greiningu á stöðunni og undirbúningi mögulegra aðgerða frá því tilkynnt var um skemmdir á lögninni. Er lögð rík áhersla á að halda henni gangandi og er leitað allra leiða til að treysta lögnina í því ástandi sem hún er núna.
Kemur fram í tilkynningu frá Vestmannaeyjabæ til íbúa vegna þessa að „það kemur auðvitað óþægilega við okkur öll þegar þær aðstæður skapast að flytja þurfi bæinn okkar á hættustig, en því fylgir reyndar líka ákveðið öryggi. Það þýðir að almannavarnayfirvöld fylgjast mjög náið með stöðu mála og viðbragðsáætlanir verða til samræmis við þær aðstæður sem upp kunna að koma. Bestu sérfræðingar hérlendis og erlendis eru komnir að málinu til að tryggja að vatnið haldi áfram að streyma til Eyja.
Leiðslan er að skila okkur fullu vatnsmagni en hún er hins vegar mikið skemmd og því ber okkur að vera búin undir allar sviðsmyndir sem upp geta komið. Bæjarbúar verða að sjálfsögðu upplýstir samstundis ef breyting verður á þessari stöðu og ef þeir þurfa að grípa til einhverra ráðstafana, en svo er ekki á þessu stigi“
HS Veitur munu á næstu dögum taka virkan þátt í vinnu Almannavarna ríkislögreglustjóra í samráði við lögreglustjórann í Vestmannaeyjum, Vestmannaeyjabæ, viðbragsaðila og aðra hagaðila að tillögum og aðgerðum til að reyna að tryggja áframhaldandi afhendingu á neysluvatni í Vestmannaeyjum.