Í tengslum við jarðhræringar og eldgos á Reykjanesi og möguleg áhrif þeirra á vatnsbólið að Lágum við Svartsengi, sem sér bæði Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ fyrir neysluvatni, hafa HS Veitur unnið að því í samvinnu við bæjarstjóra Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar og stjórnvöld að gera ráðstafanir til þess að koma upp varavatnsbóli við Árnarétt í Garði sem nýst getur þeim 25 þúsund íbúum og fyrirtækjum sem eru í Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ.
Ljóst er að verði neysluvatnslaust vegna náttúruhamfara yrðu afleiðingarnar neyðarástand þar sem neysluvatn er grunn forsenda þess að hægt sé að halda uppi búsetu og atvinnustarfsemi á svæðinu. Því er mikilvægt að tryggja svæðinu öruggt aðgengi að neysluvatni.
Hefur fyrirtækið mætt góðum skilningi frá stjórnsýslunni um flýtimeðferð á tilskyldum leyfum til að hefja framkvæmdir við borun og uppsetningu varavatnsbóls fyrir íbúa þessara sveitarfélaga. Öll tilskilin leyfi liggja nú fyrir. Gera má ráð fyrir að framkvæmdin taki um þrjár vikur frá því að borun hefst þar til búið er að koma upp nauðsynlegum dælubúnaði sem skilað getur vatninu inn í dreifikerfi vatnsveitunnar.
Samhliða þessu hefur Grindavíkurbær í samstarfi við HS Orku unnið að undirbúningi varavatnsbóls fyrir vatnsveitu Grindavíkurbæjar.