Chat with us, powered by LiveChat
Fara á efnissvæði

Anna Birgitta Geirfinnsdóttir ráðin í stöðu fjármálastjóra HS Veitna

Anna Birgitta mun leiða fjármálasvið fyrirtækisins ásamt því að taka sæti í framkvæmdastjórn.

20220309 7

HS Veitur eru framsækið þekkingar- og þjónustufyrirtæki í veitustarfsemi sem telst til mikilvægra innviða. Fyrirtækið þjónar mörgum af stærstu fyrirtækjum landsins og eru íbúar á veitusvæði HS Veitna rúmlega 84 þúsund. 

Anna Birgitta er löggiltur endurskoðandi og með umfangsmikla reynslu úr atvinnulífinu. Starfaði hún hjá Deloitte frá útskrift úr háskóla árið 1995 og sem eigandi og forstöðumaður útibús Deloitte í Reykjanesbæ á tímabilinu 2006-2021. Auk þess var hún í stjórn Deloitte og tók þátt í að leiða fyrirtækið á miklum umbreytingartímum. Frá 2021 hefur hún starfað sem ráðgjafi og stjórnarmaður í ýmsum fyrirtækjum auk setu í endurskoðunarnefndum fyrirtækja á borð við Samskip, Sjóvá, Elkem og Útgerðafélag Reykjavíkur hf.

Ég er þakklát því trausti sem mér er sýnt að fá það hlutverk að leiða fjármálasvið HS Veitna. Ég hef unnið með fyrirtækinu sem ráðgjafi og þekki því af reynslu hversu mikil þekking, kraftur og metnaður býr innan þess. Fram undan eru spennandi tímar þar sem HS Veitur þjónusta bæði ört stækkandi samfélög ásamt því að ýmis tækifæri og áskoranir liggja til dæmis í orkuskiptum í vegsamgöngum, tækninýjungum, náttúruvá o.m.fl. Hlakka ég til að fá að leggja mitt af mörkum í þeirri vegferð sem fyrirtækið er nú á“  Segir Anna Birgitta Geirfinnsdóttir. 

Það er ánægjulegt að greina frá ráðningu Önnu Birgittu. HS Veitur reka samfélagslega mikilvæga innviði sem færa viðskiptavinum lífsgæði og því mikils virði að fá með okkur öflugan og reynslumikinn liðsauka í það lykilhlutverk að leiða fjármálasvið fyrirtækisins“ Segir Páll Erland, forstjóri HS Veitna