Í tilefni af því að Ingólfur Aðalsteinsson, fyrsti starfsmaður og fyrrum forstjóri Hitaveitu Suðurnesja, hefði orðið 100 ára þann 10. október sl. komu aðstandendur hans í heimsókn til okkar hjá HS Veitum.
Veittu þau Páli Erland forstjóra f.h. HS Veitna gjöf, lágmynd úr kopar eftir Erling Jónsson sem Ingólfi var fært að gjöf árið 2001 á stofnfundi Hitaveitu Suðurnesja hf. eftir að Alþingi samþykkti samruna við Rafveitu Hafnarfjarðar og að Hitaveita Suðurnesja yrði rekið sem hlutafélag.
Fram kom í umfjöllun um Ingólf í Morgunblaðinu þann 7. október sl. að „Ingólfur var forstjóri Hitaveitu Suðurnesja 1975-92. Þar komst hann í kynni við heilsueflandi mátt kísilmettaðs affallsvatns hitaveitunnar og í blaðagrein, árið 1983, undir heitinu Bláa Lónið, kynnti hann hugmyndir sínar um heilsutengda starfsemi í Svartsengi og hvatti hagsmunaaðila til að sameinast um uppbyggingu heilsustöðvar, sem byggði á lækningarmætti lónsins. Framtíðarsýn Ingólfs átti eftir að raungerast“.
Saga Hitaveitu Suðurnesja er okkur hjá HS Veitum kær þar sem að á þeim grunni byggir HS Veitur að hluta til enn þann daginn í dag þó eins og glöggir vita var fyrirtækinu skipt upp árið 2008 í tvö sjálfstæð fyrirtæki og er okkar hlutverk að sjá um sölu og dreifingu á heitu vatni, köldu vatni og dreifingu á raforku í dag.
Þökkum við aðstandendum Ingólfs fyrir gjöfina og að hafa heimsótt okkur af þessu tilefni.