Chat with us, powered by LiveChat
Fara á efnissvæði

Samningur um kolefnisjöfnun

Í dag 8. febrúar var undirritaður samningur um kolefnisjöfnun.

Undirritun

Undirritaður var í dag þriðjudaginn 8. febrúar 2022 þríhliða samningur milli HS Veitna, Kolviðar og Lionsklúbbs Keflavíkur varðandi kolefnisjöfnun útblásturs CO2 frá bifreiðum HS Veitna.
Reiknaður útblástur CO2 frá bifreiðum fyrirtækisins nam 141,7 tonnum árið 2021.
Lionsklúbbur Keflavíkur í samstafi við Kolvið mun gróðursetja plöntur og halda utan um kolefnisjöfnun fyrirtækisins.

 

Við þetta tækifæri sagði Júlíus Jónsson forstjóri HS Veitna:

„Það er stefna fyrirtækisins að ganga vel um í hvívetna. Liður í því er að minnka kolefnisspor fyrirtækisins eins og hægt er. Fyrirtækið er á góðri leið með að skipta yfir í umhverfisvænni orkugjafa í bílaflota fyrirtækisins og er stefnan að ná því takmarki á allra næstu árum eftir því hvernig þróun rafbíla af öllum gerðum gengur. Þangað til gróðursetjum við tré til mótvægis“.

 

Við þetta tækifæri sagði Reynir Kristinsson frá Kolvið:

„Þetta þríhliða samstarf í loftslagsmálum er einkar skemmtilegt þar sem Lionsklúbbur Keflavíkur hafði frumkvæðið að því að koma á tengslum milli Kolviðar og HS Veitna með það að markmiði að binda losun útblásturs bifreiða HS Veitna. Kolviður mun á þessu ári planta 1.420 trjáplöntum sem fá það hlutverk að binda þessa losun. Kolviður vinnur nú að því að fá alþjóðlega ISO vottun á starfsemi sinni á þessu ári.“

 

Við þetta tækifæri sagði Rafn Benediktsson formaður Lionsklúbbs Keflavíkur:

„Lionsklúbbur Keflavíkur er sérstaklega stoltur af því að hafa hvatt HS Veitur til samfélagslegrar ábyrgðar með bindingu kolefnislosunar sinnar í samvinnu við Kolvið. Þessi merkilega samningur er í anda eins af fimm átaksverkefna Lions International og gerir hann okkur ekki eingöngu kleift að halda áfram áralangri trjáræktarsögu okkar heldur einnig að styðja áfram góð málefni á svæðinu.“

 

Meðfylgjandi mynd er frá undirritun samningsins og á henni eru:
Júlíus Jónsson forstjóri HS Veitna
Reynir Kristinsson Kolviði
Rafn Benediktsson formaður Lionsklúbbs Keflavíkur