Chat with us, powered by LiveChat
Fara á efnissvæði

Þjónustusvæði

Þjónustusvæði HS 2024
Þjónustusvæði HS veitna
© HS Veitur

HS Veitur hf. voru í upphafi stofnaðar sem hitaveita í þrengsta skilningi þess orðs. Í tímans rás höfum við breyst og þróast. Við önnumst dreifingu á heitu vatni, ferskvatni og raforku. Einnig önnumst við ferskvatnsöflun fyrir sum byggðarlög og rekum varmadælustöð og kyndistöð í Vestmannaeyjum sem sjá íbúum þar fyrir heitu vatni.

Suðurnesjum

Við eigum og rekum rafmagnsdreifikerfi og hitaveitudreifikerfi á Suðurnesjum. Einnig annast HS Veitur dreifingu á ferskvatni í Reykjanesbæ og Garði.

Brekkustigur36
Starfsstöð og höfuðstöðvar Brekkustíg 36 í Reykjanesbæ
© HS veitur

Dreifikerfi okkar á Suðurnesjum

  • Við dreifum raforku svo til eingöngu með jarðköplum, þannig að lítið ber á rafdreifikerfinu ef frá eru taldar dreifistöðvar og götuskápar. Þessi uppbygging lágmarkar áhrif veðurs á dreifinguna og veitir hæsta afhendingaröryggið. Við dreifum rafmagni á nokkrum spennuþrepum eða 33kV, 12kV og 400 voltum.

  • Aðveitulagnir frá Svartsengi eru lagðar ofanjarðar og einangraðar með steinull og síðan varðar með álþynnum. Allar aðrar lagnir eru neðanjarðar.

    Hitastig vatnsins frá orkuveri er með tvennum hætti. Vatn sem fer til Grindavíkur fer út um 83°C og er þá gert ráð fyrir að það sé um 80°C við bæjarmörk. Það vatn sem fer til dælustöðvar á Fitjum fer út frá orkuverum um 105°C til 120°C síðan er það blandað með bakrennslisvatni frá Ásbrú í dælustöð að Fitjum og sent út til notenda um 83°C. Almennt er reiknað með að notendur nýti varmann úr vatninu niður í 35°C til 40°C en síðan rennur vatnið til sjávar um holræsakerfi sveitarfélaganna. Dreifikerfin eru svokallað einfalt hitaveitukerfi. Tvöfalt hitaveitukerfi er á Ásbrú og skilar bakrennslið sér þaðan aftur í dælustöð. Einnig er tvöfalt kerfi í Steináshverfinu í Njarðvík.

    Ferskvatnstaka í Gjá og víðar fyrir orkuverið er nokkuð mikil eða allt að 1.200 tonnum á klukkustund (330 lítrar á sekúndu) og vatnstaka vegna vatnsveitnanna er að meðaltali um 700 tonn á klukkustund (190 lítrar á sekúndu). Ekki er þó talin hætta á of mikilli vatnsnotkun, þar sem reiknað er með að meðalúrkoma sem fellur á 10 til 15 ferkílómetrum nægi til að fullnægja allri vatnsþörf hitaveitunnar. Til samanburðar má nefna, að Reykjanesskaginn í heild er um 580 ferkílómertrar.

  • Við eigum og rekum dreifikerfi fyrir kalt vatn í Reykjanesbæ, hluta Suðurnesjabæjar (Garði). Að auki sjáum við um rekstur vatnsveitunnar á flugverndarsvæðinu. Önnur sveitarfélög á Suðurnesjum fá afhent kalt vatn frá okkur en reka sín eigin dreifikerfi.

    Aðalvatnstökusvæði okkar er í gjá í hrauninu í Lágum. Ferskt vatn flýtur ofan á jarðsjónum á þessum slóðum. Dælustöðin í Lágum er byggð yfir gjá sem fyllt var af grjóti og möl eftir að komið hafði verið fyrir í henni fimm stálrörum. Þrjár dælur sem hver um sig afkastar 100 lítrum á sekúndu eru í stöðinni. Vatnsþörfin í Reykjanesbæ er 140- 160 lítrar á sekúndu. Með aukinni vatnsþörf er hægt að bæta við dælum en megin stofnæðin er hönnuð fyrir hámarksrennsli uppá 400 lítra á sekúndu. Aðal miðlunarrými veitunnar er í Grænásgeymi, í Keflavík er einnig geymir og annar til vara.

    Garður fær sitt vatn úr tveimur borholum sem staðsettar eru við Árnarétt og Skálareykjaveg, tveir miðlunartankar eru á kerfinu.

    Hafnir fá sitt vatn úr tveimur borholum sem eru við þjóðvegin u.þ.b. 0,6 kílómetra austan við byggðina. Saltmagn í þessu vatni er hátt. Til að vinna bót á því er sérstakur búnaður sem síar salt úr neysluvatni, með því er málmtæring minnkuð og vatnið stenst reglugerð um neysluvatn.

    Íbúar í sveitarfélaginu í Vogum fá sitt vatn úr borholu við Vogavík, unnið er að því að setja upp nýtt vatnstökusvæði fyrir Vogana.

Vestmannaeyjar

HS Veitur hafa þjónustað íbúa Vestmannaeyja frá því að fyrirtækið sameinaðist Bæjarveitum Vestmannaeyja árið 2002. Í Vestmannaeyjum starfa að jafnaði um 10 einstaklingar á starfstöð okkar við Tangagötu sem hafa það veigamikla hlutverk að standa að rekstri og viðhaldi dreifikerfis HS Veitna í Vestmannaeyjum.

Tangargata
Starfsstöð í Vestmannaeyjum að Tangagötu
© HS Veitur
Lifaedar Eyja
Lífæðar Vestmannaeyja
© HS veitur

Dreifikerfi í Vestmannaeyjum

  • Rafmagnið kemur frá fastalandinu í gegnum tvo sæstrengi sem eru í eigu Landsnets. Strengirnir eru leiddir í aðveitustöð fyrirtækisins í Vestmannaeyjum og þaðan dreift um dreifikerfið í bænum. Við dreifum raforku svo til eingöngu með jarðköplum, þannig að lítið ber á rafdreifikerfinu ef frá eru taldar dreifistöðvar og götuskápar. Þessi uppbygging lágmarkar áhrif veðurs á dreifinguna og veitir hæsta afhendingaröryggið. Við dreifum rafmagni á nokkrum spennuþrepum eða 33kV, 12kV og 400 voltum. Vara- og toppstöð rafveitunnar er staðsett í vélasal fyrirtækisins. Um er að ræða sjö Caterpillar vélar sem geta framleitt um 5 MW.

  • Starfsemi vatnsveitu í Vestmannaeyjum til að fullnægja vatnsþörf samfélagsins er skylduverkefni bæjaryfirvalda skv. Lögum nr. 32/2004 um vatnsveitu Sveitarfélaga. Heimilt er að fela verkefnið félagi sem er í meirihluta eigu opinberra aðila og annast HS Veitur rekstur vatnsveitu í Eyjum á þeim grundvelli. Vatn veitunnar er tekið úr tveimur vatnslindum í landi Syðstu Merkur á fastalandinu. Vatninu er dælt um eina neðansjávarvatnsleiðslu til Vestmannaeyja og þaðan um dreifikerfið. Tvö dreifikerfi eru í bænum, efra dreifikerfi og neðra dreifikerfi. Allt neysluvatn er selt í gegnum rennslismæla og með álagningu vatnsgjalda.

  • Hitaveitan í Vestmannaeyjum sker sig úr hvað varðar önnur þjónustusvæði HS Veitna að því leitinu til að það þarf að framleiða hvern einasta dropa af heitu vatni. Er því um svokallaða fjarvarmaveitu að ræða sem hefur þá þýðingu að heitavatnsframleiðslan er háð bæði köldu vatni og rafmagni eða eftir atvikum olíu sem kemur frá meginlandinu. Innviðir sem tengjast heitavatnsframleiðslu eru í eigu HS Veitna og felast þeir í varmadælustöð, rafskautakatli og olíukötlum. Olíukatlarnir eru eingöngu notaðir þegar rafmagn er af skornum skammti, þ.e. skerðingar eiga við á vegum Landsvirkjunar eða bilanir eru á strengjum Landsnets. Að öðru leiti er stuðst fyrst og fremst við varmadælustöðina og rafskautaketilinn við heitavatnsframleiðslu.

    Varmadælustöðin var tekin í notkun árið 2018 og í henni eru fjórar sjóvarmadælur. Á hverjum klukkutíma er 450 l/sek (16.200 m3/klst.) dælt upp af um 8°C heitum sjó til orkuframleiðslunnar. Vinnslumiðill sjóvarmadælunnar er ammoníak sem fer í gegn um sjóvarmaskiptin. Í sjóvarmaskiptinum fer sjór um aðra hlið hans og ammoníak um hina. Vegna lágs suðumarks ammoníaks sýður ammoníakið í varmaskiptinum og breytist í ammoníaksgufu og sjórinn kælist. Ammoníaksgufan fer þaðan inn í skrúfupressu sem þjappar gasinu saman upp í rúm 30 bar og þá er hitinn á gasinu orðinn um 115°C. Ammoníakgasið fer þaðan í varmaskipta hitaveitunnar og hitar upp vatn hennar. Eftir það er ammoníakið orðið kaldur vökvi og fer síðan aftur í sjóvarmaskiptinn og hringrásin hefst aftur.

    Frá varmadælustöð og kyndistöð er heitu vatni dreift til heimila og atvinnulífs í Vestmannaeyjum í gegnum lokað hringrásarkerfi. Heitu vatni er því skilað aftur í kerfið og það hitað upp aftur. Með því að nota fyrrgreinda tækni varmadælustöðvarinnar hefur tekist að lækka rafmagnsnotkun til hitaveitu í Eyjum um u.þ.b. 50% sem er mikils virði þegar litið er á þróun raforkuverðs og horfur í raforkumálum á Íslandi.

Hafnarfjörður og hluti Garðabæjar

Selhella
Starfsstöð Selhellu 8 Hafnarfirði
© HS Veitur

Dreifikerfi í Hafnarfirði og hluta Garðabæjar

  • Við dreifum raforku svo til eingöngu með jarðköplum, þannig að lítið ber á rafdreifikerfinu ef frá eru taldar dreifistöðvar og götuskápar. Þessi uppbygging lágmarkar áhrif veðurs á dreifinguna og veitir hæsta afhendingaröryggið. Við dreifum rafmagni á nokkrum spennuþrepum eða 12kV og 400 voltum.

Árborg

Arborg
Starfsstöð Eyravegi 53 Selfossi
© HS Veitur

Dreifikerfi í Árborg

  • Við dreifum raforku svo til eingöngu með jarðköplum, þannig að lítið ber á rafdreifikerfinu ef frá eru taldar dreifistöðvar og götuskápar. Þessi uppbygging lágmarkar áhrif veðurs á dreifinguna og veitir hæsta afhendingaröryggið. Við dreifum rafmagni á nokkrum spennuþrepum eða 33kV, 12kV og 400 voltum.

    Athugið að það er svæði innan Árborgar þar sem Rarik sér um rafmagnsdreifingu.

Rekstrartruflanir