Hitum skynsamlega
Íslensk heimili nota árlega að meðaltali 4-5 tonn af heitu vatni á hvern rúmmetra húsnæðis. Um 90% af notkuninni er vegna húshitunar og afganginn notar fólk til annars eins og að fara í bað eða sturtu, þrífa heimilið og vaska upp.
Hjá HS Veitum eru stafrænir mælar sem mæla notkun hvers og eins og er því upphæð orkureikninga háð notkun hverju sinni. Til að stuðla að hagkvæmni og hafa þannig áhrif á orkureikninginn liggur beinast við að skoða vel hvernig við nýtum heita vatnið sem best til húshitunar.
Hvað telst eðlileg notkun þegar kemur að hitaveitu?
Margt getur haft áhrif á hversu mikið heitt vatn er notað;
- stærð húsnæðis og tegund,
- fjöldi heimilisfólks,
- einangrun hússins,
- stillingar hitakerfis og fleira.
Til að meta hvort notkun sé eðlileg getur verið gagnlegt að bera hana saman við notkunarstuðul fyrir tegund húsnæðis.
Stuðullinn er fundinn með því að deila ársnotkun með stærð húsnæðis í rúmmetrum. Er það gert með því að margfalda fermetrafjölda með 3,3 og deila svo ársnotkun með stærð eignar í rúmmetrum, sjá dæmi:
Á Mínar síður getur þú nálgast upplýsingar um þína notkun, reiknað þinn notkunarstuðul og borið saman við við neðangreinda viðmiðunartöflu.
Stuðullinn táknar tonn af vatni á hvern rúmmetra í húsi á ári.
- Lægra gildið í töflunni er viðmið fyrir vel einangrað hús með vel stilltu hitakerfi og
- hærra gildið samsvarar eðlilegri notkun fyrir hús í þokkalegu ástandi.
Viðmiðunartafla við útreikning á nýtingu heita vatnsins:
Tegund eignar | Notkunarstuðull m3 |
Stór fjölbýlishús |
1,0 - 1,4 |
Minni fjölbýlishús |
1,1 - 1,5 |
Einbýlishús |
1,2 - 1,8 |
Verslunarhúsnæði |
0,6 - 0,8 |
Skrifstofuhúsnæði |
0,5 - 0,8 |
Iðnaðarhúsnæði |
0,4 - 1,0 |
Lagerhúsnæði |
0,3 - 0,8 |
Ýmislegt getur haft áhrif á notkunarmynstur eins og heitir pottar og snjóbræðsla þar sem meira en bakrás er notuð.
Við mælum með að fylgjast vel með notkun til að tryggja að sóun sé ekki að eiga sér stað !
Sparnaðarráð
-
Hver gráða innanhúss getur haft áhrif á notkunina þína á heitu vatni. Eins geta stillingar haft áhrif og er mikilvægt að tæki til stjórnunar á innihita (ofnakranar, hitastillar) séu í lagi.
Best er að ofnar hafi lofthitastýrða ofnloka. Það þýðir að lítið mælitæki er í hitastillingum á ofninum. Hann er sjaldnast sýnilegur en mælir hitastigið í herberginu og stillir ofninn eftir því. Þegar kalt er í veðri ættu lofthitastýrðir ofnar að taka við sér og hita herbergið eftir þörfum.
Einnig er mikilvægt að hitanemar séu ekki lokaðir af með gardínum, of stórum sólbekkjum eða gluggatjöldum þar sem það dregur úr jöfnu hitastreymi um herbergið.
-
Mikilvægt er að láta jafnvægisstilla hitakerfi reglulega. Með því er verið a ganga úr skugga um að einn ofn fái ekki of mikið magn á kostnað annarra ofna í húsinu. Með jafnvægi í hitastýringu næst betri nýting á kerfinu með tilheyrandi hagræðingu.
-
Að fylgjast með notkun á heitu vatni mánuð eftir mánuð eykur líkur á því að þú áttir þig á því ef eitthvað er óvenjulegt og getur þá brugðist við til að mynda ef upp kemur bilun í húskerfi.
Hafa ber í huga að notkun er öllu jafna breytileg hjá viðskiptavinum eftir árstíðum og er meiri yfir vetrarmánuðina á meðan kalt er í veðri.
Auðvelt er að fylgjast með notkun og bera saman á milli ára inn á Mínar síður.
-
Góð leið til að stuðla að árangri í orkusparnaði er að hafa virkt eftirlit með hitakerfum í húsum. Hitakerfin eru eign húseigenda og á þeirra ábyrgð að láta viðhalda þeim.
Með reglubundu eftirliti er hægt að sporna gegn því að til dæmis bilanir séu í húskerfum án vitundar húseigenda sem getur valdið því að notkun er meiri en þörf er á.
-
- Passaðu að loft leiki um hitaskynjara, þ.e. að húsgögn og gardínur séu ekki alveg fyrir ofnum og að hitinn nái að flæða um herbergið og nýtast vel.
- Hitinn leitar upp. Ef ofn er staðsettur beint fyrir neðan glugga er hitanum hleypt út í stað þess að hita herbergið. Mikilvægt er að lofta vel út stundum en það nýtir heita vatnið illa að hleypa hitanum beint út um glugga sem er stöðugt opinn.
- Ef ofn er mjög heitur neðst (heitari en líkamshiti) þá er líklegt að hann sé annað hvort of hátt stilltur eða of lítill fyrir rýmið sem hann á að hita.
- Ef ofn hitnar ekki þó stillingu sé breytt þá getur pinninn í hitastillinum verið fastur. Þá er hægt að taka hitastillinn af (toga upp/toga að sér) og ýta aðeins við pinnanum til að liðka hann. Ef það virkar ekki þarf að hafa samband við pípara. Ýmis gagnleg myndbönd eru til á netinu um hvernig er best að gera þetta.
Hvað er gott að skoða betur ?
-
Ofnar sem suða nýta vatnið oft illa og þá þarf að yfirfara þá af pípara. Það getur borgað sig fljótt að láta laga slíkt.
-
Handklæðaofnar eru þægilegar en mælt er með að fylgjast með að þeir hitni ekki of mikið því þeir eiga það til að byrja að nýta vatnið illa og hækka þá reikninginn óþarflega mikið.
-
Bank í ofnum orsakast oft að því að það er loft inn í þeim og þá virka þeir ekki sem skyldi. Mælt er með að fólk afli sér upplýsinga um eða fái aðstoð frá pípara með hvernig best sé að standa að því að losa loftið með því að tappa af þeim.