Starfsemin
Vatnssvið HS Veitna þjónustar yfir 35 þúsund íbúa og fjölda fyrirtækja á dreifiveitusvæði vatnsþjónustu fyrirtækisins. Einingin er með starfsstöðvar á Suðurnesjum og í Vestmannaeyjum.
Líkt og á rafmagnssviði er lögð rík áhersla á öryggi starfsmanna og hafa starfsmenn vatnsdeildar sem og á öðrum deildum tekið í notkun "staldraðu við" og hefur náðst góður árangur á nýtingu þess og þökkum við notkun þess að einhverju leiti fækkun slysa.
Tekin voru regluleg sýni úr vatnsveitum HS Veitna, útkoman var góð og öll sýni fullkomlega heilnæm.

Suðurnes
Helstu áskoranir vatnsdeildar í rekstri dreifikerfis hitaveitu á árinu voru tengdar jarðvá á Reykjanesi þar sem jarðhræringar, jarðsig og sprungur hafa valdið lekum í dreifikerfi HS Veitna í Grindavík og hefur markvist verið unnið að lagfæringu lagna samhliða framkvæmdum á vegum framkvæmdanefndar Grindavíkur.
Starfsfólk sviðsins vann þrekvirki við krefjandi aðstæður þegar Njarðvíkuræðin gaf sig í febrúar vegna hraunrennslis. Við þær aðstæður var allt kapp lagt á að verja dreifikerfið fyrir skemmdum og var gripið til svokallaðrar trukkaveitu og reyndist það verkefni vel í verndun dreifikerfis þar sem hún gerði starfsmönnum HS Veitna kleift að halda hita á hluta dreifikerfisins á meðan heitavatnsleysið varði. Þetta verkefni var unnið í góðri samvinnu við starfsmenn Veitna sem lögðu verkefninu lið með dælubúnaði, aðgengi að tankbílum og áfyllingu tankbíla á heitu vatni í Hafnarfirði.
Hvað varðar dreifikerfin þá voru helstu verkefni ársins endurnýjanir götulagna í dreifikerfum hitaveitu og ferskvatns. Má þar einna helst nefna framkvæmdir í Baugholti en til stendur að ljúka endurnýjun götulagna í þeirri götu á nýju ári. Eins voru endurnýjaðar götulagnir í hluta Skólavegar samhliða framkvæmdum Reykjanesbæjar við endurnýjun skolplagna.
Unnið var við ýmsar stærri tengingar við dreifikerfi hitaveitu og ferskvatns fyrir margvíslega starfsemi á svæðinu og má þar meðal annars nefna gagnaver og neyðarhitaveitu í Rockville.
Unnið var að uppbyggingu dreifikerfa í íbúðarhverfum í Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ og Vogum í samstarfi við sveitarfélög, einkaaðila og verktaka.

Vestmannaeyjar
Hvað hitaveituna varðar náðist árangur í rekstri hennar á árinu. Undanfarin ár hafa verið krefjandi þar sem um fjarvarmaveitu er að ræða sem háð er rafmagni og eftir atvikum olíu við framleiðsluna. Í upphafi árs voru áskoranir þar sem Landsvirkjun hafði boðað skerðingar. Var tekin ákvörðun um að kaupa græna orku sem var umtalsvert kostnaðarmeira en ef skerðanleg orka hefði staðið til boða.
Á árinu var gert við nokkur inntök og farið í átak í viðhaldi brunna. Rekstur sjóvarmadælustöðvar gekk með ágætum. Viðhald á pressum var komið í góðan farveg og hefur viðgerðartími minnkað og þar af leiðandi rekstrarstopp. Tvær sjódælur biluðu á árinu sem höfðu gengið án hnökra í sex ár og voru þær endurnýjaðar. Unnið var að greiningu um möguleg kaup á fleiri varmadælum. Rekstur kyndistöðvar gekk jafnframt vel og voru endurnýjaðar tvær dælur fyrir dreifikerfi hitaveitunnar í bænum.
Hvað vatnsveituna varðar gekk rekstur stofnæðar í landi ágætlega. Þrjár bilanir urðu og loka þurfti fyrir rennsli til Eyja á meðan á viðgerð stóð. Miðlunartankur við Löngulág sá til þess að það hafði ekki áhrif á neysluvatnsdreifingu. Farið var í viðgerð við lögn undir Markafljóti sem tryggir aukið rekstraröryggi.
Í dælustöðinni á Landeyjarsandi var lokið við að tengja nýja dælu. Eru nú tvær nýjar dælur og stjórnbúnaður endurnýjaður að hluta sem auðveldar alla dælustjórnun og eftirlit. Vegna leka á neðansjávarvatnslögn og töluverðar aukningar á vatnsnotkun í Eyjum, eða um 9% aukning á milli ára þá þurftu dælurnar á Landeyjarsandi að vera meira í rekstri en áður og jókst raforkunotkun vegna þess. Dælan á Skansinum var jafnframt látin ganga allan sólarhringinn á árinu til að minnka þrýsting á bilunarstað.
Á árinu var farið í bráðaviðgerð á neðansjávarvatnslögn sem er í eigu Vestmannaeyjabæjar en HS Veitur hafa afnot af og sjá um rekstur á. Lagt var upp með að tryggja lögnina svo að leki aukist síður og lögnin verði fyrir frekari skemmdum. Var lögnin fest við Klettsnefið. Eins hafa HS Veitur aðstoðað eiganda lagnarinnar við innkaupaferli á nýrri lögn ásamt því að skoða leiðir til viðgerðar á skemmdu lögninni. Ljóst er að nokkurn tíma mun taka fyrir eiganda lagnarinnar að ráðast í úrbætur þar á.
Vatnssala 2024
Innviða uppbygging 2024
Rekstrartruflanir 2024
Snjallvæðing
Snjallvæðingu hitaveitumæla hjá HS Veitum er lokið. Er innheimt fyrir hitaveitu eftir raun notkun um hver mánaðarmót og geta viðskiptavinir jafnframt fylgst með notkun inn á mínum síðum á vef fyrirtækisins.
Snjallmælar í dreifikerfi hitaveitu sönnuðu notagildi sitt á árinu og sér fyrirtækið ótal mörg tækifæri í enn frekari nýtingu þeirra við rekstur og greiningu dreifikerfis á komandi árum. Mælingar á rennsli á heitu vatni frá dælustöðinni á Fitjum til byggða gáfu það til kynna að notkun á heitu vatni hefði náð sögulegu hámarki og er því ljóst að horfa þarf til þess að styrkja dreifikerfi hitaveitu með tilliti til aukinnar notkunar í náinni framtíð.