Starfsemin
Til skrifstofu forstjóra heyra fjölbreytt verkefni sem flest eiga það sameiginlegt að hafa áhrif á það hvernig samstarfsfólki gengur að inna störf sín af hendi og hvernig viðskiptavinir upplifa HS Veitur. Samnefnarinn liggur í því að veita þjónustu í öllum verkefnum sem við sinnum.
Mannauðsmál
HS Veitur leggja mikla áherslu á að vera eftirsóttur vinnustaður sem laðar til sín hæft starfsfólk í öll störf. Mannauður fyrirtækisins er dýrmætasta auðlindin og undirstaða árangurs og velgengni. Við leggjum ríka áherslu á að standa vörð um þekkingu, færni og vellíðan starfsfólks.
Í byrjun árs 2024 voru 95 starfsmenn hjá HS Veitum, á fjórum starfsstöðvum. Meðalaldur starfsfólks í janúar 2024 var 51,8 ár og meðal starfsaldur 12,7 ár, sem er lækkun frá fyrra ári. Af 97 starfsmönnum eru 72 karlar og 21 konur, eða um 23%.
Á árinu var áfram fylgst með líðan starfsfólks með vinnustaðagreiningu. Niðurstöður voru rýndar og brugðist var við þeim með það að markmiði að auka starfsánægju og traust starfsfólks enn frekar. Þrátt fyrir að starfsánægja hjá HS Veitum sé almennt yfir meðallagi í samanburði við vísitölu íslenskra fyrirtækja er stöðugt unnið að því að bæta hana.
Stefnumótunarvinna
Árið 2024 var umfangsmikil stefnumótunarvinna í gangi þar sem greining var framkvæmd á sviðum fyrirtækisins með vinnustofum, viðtölum og greiningum á gögnum. Allt starfsfólk tók þátt í stefnumótuninni með þátttöku í vinnustofum og viðtölum. Markmið skipulagsbreytinganna var að gera gott enn betra og þróast í takt við breytt starfsumhverfi og væntingar allra hagaðila; viðskiptavina, starfsfólks, eigenda og samfélagsins sem fyrirtækið þjónar.
Í september var tillaga að nýju skipuriti kynnt starfsmönnum þar sem aukin áhersla var lögð á skilvirka þjónustu bæði inn á við og út á við, þar með talið aukna stafræna þjónustu. Inn á við endurspeglar nýtt skipulag áherslu á þróun mannauðs, árangur og eftirsóknarverða vinnustaðarmenningu, auk þess sem áherslan verður í ríkara mæli á verkefnamiðað skipulag.
Hátt í 400 umbótatillögur bárust frá starfsfólki sem hafa verið gróflega flokkaðar eftir sviðum og er vinna við forgangsröðun hafin.
Jafnlaunamál
HS Veitur hafa frá árinu 2020 uppfyllt kröfur jafnlaunavottunar. Launamunur kynja og hlutfall launa forstjóra miðað við miðgildi launa er undir þeim viðmiðum sem fyrirtækið hefur sett sér.
Helstu breytingar á starfsmannahaldi árið 2024
Starfsmannavelta var 11,8% á árinu, sem skýrist m.a. af skipulagsbreytingum í kjölfar stefnumótunarvinnu.
14 sumarstarfsmenn störfuðu hjá HS Veitum á öllum starfssvæðum í sumar við fjölbreytt störf og eru þeim færðar þakkir fyrir.
Samskipta- og markaðsmál
Árið var á heildina litið nokkuð litríkt í samskipta og kynningarmálum fyrirtækisins. Jarðvá á Reykjanesi hafði þar umtalsverð áhrif og bar mikið á kynningum í tengslum við verkefni fyrirtækisins og viðbragðsáætlanir í tengslum við áhrif af eldgosum og jarðhræringum almennt. Slegin voru met í heimsóknum á alla miðla og var jafnframt stofnaður bæði Instagram og Tiktok aðgangur sem báðir eru í þróun. Er með þeim miðlum lögð áhersla á að kynna starfsemi fyrirtækisins út á við og ýta þannig undir áhuga á HS Veitum sem spennandi vinnustað. Einnig eru miðlarnir notaðir til að leyfa viðskiptavinum að fylgjast með ef upp koma bilanir eða stærri framkvæmdaverk sem áhrif hafa á þjónustustig.
Áhersla var líkt og áður á markvissa upplýsingamiðlun bæði innan fyrirtækisins og út á við í tengslum við starfsemi fyrirtækisins, möguleg áhrif af jarðhræringum og einnig af áhrifum á þjónustustig almennt, svo sem ef upp koma stærri bilanir eða framkvæmdaverk. Þá stóð fyrirtækið fyrir opnum upplýsingafundi í Vestmannaeyjum í kjölfar óánægju íbúa vegna breytinga og hækkunar á hitaveitu í Eyjunni. Var nýtt tækifærið og leiðréttur ýmis misskilningur sem hafði orðið að umfjöllunarefni í bænum.
Áhersla var á Ytri vef fyrirtækisins sem var uppfærður á árinu og ýmsar upplýsingar settar fram í notendavænni búning. Á ytri vef fyrirtækisins var jafnframt unnið að markvissri fréttaumfjöllun í tengslum við starfsemina og í innri miðlun var notast við bæði Workplace og svo haldnir reglulegir upplýsingafundir forstjóra með starfsfólki.
Áfram var slegið met í fréttaumfjöllunum þar sem HS Veitur komu fyrir líkt og sjá má í eftirfarandi samantekt:
Upplýsingatækni
Rekstur ársins tengt upplýsingatækni fyrirtækisins gekk vel og lítið var um óvæntar truflanir eða bilanir í kerfum HS Veitna.
Á árinu var unnið að viðbótum, endurbótum og viðhaldi tölvubúnaðar eins og tilefni var til. Tölvukerfin eru rekin miðlægt og í skýinu að nokkru leyti. Til upplýsingakerfa telst allur tölvuhugbúnaður, tölvuvélbúnaður og símabúnaður fyrirtækisins fyrir utan iðntölvustýringar.
Allir netþjónar fyrirtækisins eru nú komnir í hýsingu og rekstur utan vinnustöðva HS Veitna, nema örfáir sem þörf er á vegna mögulegra truflana á nettengingum.
Á árinu var bæði heimasíða fyrirtækisins sem og þjónustusíða viðskiptavina Mín Síða uppfærðar og betrumbættar. Einnig hefur verið unnið ötullega að öryggisherðingum upplýsingakerfanna.
Deildin er rekin með þremur stöðugildum.
Þjónusta
Eins og undanfarin ár voru verkefnin fjölbreytt í þjónustudeild. Í febrúar þegar hraun fór yfir Njarðvíkuræðina og heitavatnslaust varð á Suðurnesjum í nokkra daga var álag mikið á þjónustuveri.
Bæði á meðan svæðið var án heita vatnsins og einnig eftir að vatnið kom á aftur en þá var píparasveit Almannavarna að störfum og þjónustan sá um að taka niður beiðnir frá viðskiptavinum þar sem þurfti að kíkja á húskerfi.
Þá var aukin opnunartími í þjónustuveri, haft opið yfir helgi frá morgni til 22:00 og einnig var opið virka daga í heila viku til kl 22:00 á kvöldin.
Á meðan heitavatnslaust var og viðskiptavinir þurftu að nota rafmagnskyndingu var mikið álag á dreifikerfið, þjónustan fylgdist með notkun og sendi út skilaboð til viðskiptavina og biðlaði til þeirra að draga úr notkun þar sem þess þurfti.
Það gekk mjög vel og íbúar á svæðinu brugðust hratt við beiðni. Samstaða íbúa og skilningur skipti öllu máli og er virkilega þakkarvert.
Á árinu voru skráð óvenju mörg notendaskipti m.a vegna rýmingu í Grindavík og sölu eigna í bæjarfélaginu til Fasteignafélagsins Þórkötlu.
Hefðbundin verkefni eins og skráning á heimlagnabeiðnum, mælaskiptum, notendaskiptum og ýmsum öðrum tilkynningum voru á sínum stað sem og umsjón reikningagerðar og innheimta.
Starfsmenn þjónustu kappkosta við að veita góða þjónustu og upplýsingar til viðskiptavina með gildi HS Veitna að leiðarljósi.
Gæða- og skjalamál
HS Veitur eru samfélagslega ábyrgt fyrirtæki sem færir notendum sínum nútímalífsgæði með aðgengi að tærum og endurnýjanlegum auðlindum allan ársins hring. HS Veitur leggja áherslu á stöðugar umbætur og vinna í fullu samræmi við lög, reglugerðir og aðrar kröfur.
Árlega eru gerðar mælingar í rafmagnsdreifikerfinu til staðfestingar þess að afhendingargæði fyrirtækisins séu innan skilgreindra vikmarka staðla og reglugerða.
HS Veitur fylgjast með gæðum vatns sem dælt er uppúr vatnsbólunum með símælingum og eins sér heilbrigðiseftirlit á svæðunum um sýnatökur ýmist við vatnsbólin sjálf og eins á fyrirfram ákveðnum stöðum innan dreifikerfis. Engin frávik urðu við sýnatökur heilbrigðiseftirlita á árinu samkvæmt reglugerð 536/2001, niðurstöður eru aðgengilegar á heimasíðu fyrirtækisins.
Hvað heitt vatn varðar fer fram efnagreining hjá HS Orku á heitavatnsframleiðslu fyrir Suðurnes en auk þess gera HS Veitur mælingar á súrefni með reglubundnum hætti á fyrirfram ákveðnum stöðum innan dreifikerfisins.
Öryggis-, heilsu- og umhverfismál
Öryggismál
Öryggismál áttu viðamikinn sess í starfsemi HS Veitna á árinu 2024 líkt og áður. Óhefðbundnar og óvæntar aðstæður í tengslum við jarðvá á Reykjanesi kalla sífellt á viðbótar viðbragð, öryggisbúnað og nýja nálgun við að leysa dagleg verkefni við hættulegar og síbreytilegar aðstæður.
Helstu verkefni voru sem dæmi vinna við endurskoðun og uppfærslu á áhættumati, viðbragðsáætlunum og leiðbeiningar vegna jarðvá. Einnig var áframhaldandi áhersla á „staldraðu við“ sem felst í að starfsfólk geri áhættumat fyrir verk til að fyrirbyggja slys og viðhalda sterkri öryggisvitund. Greining á fjölda skráninga má sjá hér:
LMP (læsa, merkja, prófa) verkefnið var einnig undirbúið og mótað á árinu. Í því felst að innleiða læsingarferil fyrir háskalega orku og er með því ætlað að fyrirbyggja slys eða mistök og efla þannig öryggi starfsfólks. Þá var unnið að uppfærðri öryggis- og umhverfishandbók fyrir verktaka. Öryggismerkingar- og búnaður í bifreiðum var einnig samræmt.
Neyðarstjórn var virk á árinu og voru haldnir 42 fundir. Þar að auki áttu fulltrúar fyrirtækisins fjölmarga aðra fundi með helstu viðbragðsaðilum. Í neyðarstjórn situr framkvæmdastjórn ásamt fagfólki þvert á fyrirtækið.
Segja má að á árinu hafi árangur sýnt sig í öryggismálum að teknu tilliti til skráðra slysa og atvika líkt og sjá má í eftirfarandi samanburði:
Umhverfismál
Hvað umhverfismálin varðar var lögð áhersla á að lágmarka losun gróðurhúsalofttegunda. Líkt og sjá má í neðangreindum samanburði er umtalsverður samdráttur á milli ára hvað varðar losun vegna orkuframleiðslu. Skýrist það einna helst á ákvörðun í upphafi árs um að kaupa frekar græna orku fyrir varmaver HS Veitna í Vestmannaeyjum í stað þess að brenna olíu þar sem Landsvirkjun hafði boðað skerðingar á fyrstu vikum ársins.
Heilsumál
HS Veitur hafa um árabil lagt mikla áherslu á heilsu og vellíðan starfsfólks síns. Í samstarfi við Vinnuvernd býður félagið upp á heilbrigðisþjónustu sem felur í sér aðgang að trúnaðarlækni, heilbrigðisþjónustuveri og sálfræðingum.
Árlega er öllum starfsmönnum boðið upp á heilsufarsmat sem tekur mið af bæði sálfélagslegum og líkamlegum þáttum. Þetta mat stuðlar að betri heilsu og vellíðan starfsfólks og hjálpar til við að greina og bregðast við mögulegum heilsufarsvandamálum á fyrri stigum.
Auk þess bjóða HS Veitur upp á heita máltíð fyrir starfsmenn á öllum starfssvæðum. Félagið er stolt af því að skapa vinnuumhverfi þar sem heilsa og vellíðan starfsfólks er í fyrirrúmi.
