Starfsemin
Rafmagnssvið HS Veitna þjónustar yfir 90 þúsund íbúa og fjölda fyrirtækja á dreifiveitusvæði HS Veitna og er með starfsstöðvar á Suðurnesjum, í Hafnarfirði, Vestmannaeyjum og Árborg. Starfsfólk sviðsins tók virkan þátt á fagþingi Samorku um vorið í Hveragerði, bæði með fyrirlestrum og í fagkeppninni.
Rík áhersla hefur, líkt og áður, verið lögð á öryggi starfsfólks og gefa slysaskráningar það til kynna að vel hefur tekist til í þeim efnum.

Suðurnes
Heilt yfir gekk almennur rekstur rafmagnsdeildarinnar á Suðurnesjum vel. Unnið var að uppbyggingu dreifikerfa í íbúðarhverfum í Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ og Vogum í samstarfi við sveitarfélög, einkaaðila og verktaka. Framkvæmdaráætlun stóðst að mestu leyti og tókst almennt vel að klára verk á tilsettum tíma.
Árið litaðist nokkuð af jarðhræringum og viðbragði því tengdu. Þar átti rekstur dreifikerfisins í Grindavík stóran sess og eins reyndi á rekstur dreifikerfisins í öðrum sveitarfélögum með tilkomu aukins álags á dreifikerfið vegna rafmagnskyndingar í tengslum við rof á Njarðvíkuræð þann 8. febrúar síðastliðinn. Í tengslum við þessi verkefni sannaði sig enn og aftur hversu mikil liðsheild og eining ríkir meðal starfsmanna HS Veitna þar sem rafmagnsdeildin á Suðurnesjum naut mikilvægs stuðning frá öðrum starfssvæðum í þeim verkefnum.
Unnið var samkvæmt áætlun í spennubreytingum á Suðurnesjum og settum markmiðum ársins náð og verður haldið áfram á þeirri braut á nýju ári samkvæmt fyrirliggjandi áætlun.
Haldið var áfram með það verkefni að skipta út múffukerfum og í ár var unnið við breytingar á dreifikerfinu í Baugholti með tilheyrandi ónæði fyrir íbúa hverfisins. Starfsmenn HS veitna lögðu sig fram við að finna lausnir á vandræðum íbúanna sem snéru meðal annars að hleðslu rafmagnsbíla þeirra sem urðu fyrir truflun á aðgengi að innkeyrslum sínum. Í áætlunum er gert ráð fyrir að halda áfram með breytingar á dreifikerfinu í Baugholti og vonir standa til að þeim verði lokið á nýju ári.
Styrking innviða í tengslum við orkuskipti voru margvísleg og fjöldin allur af heimtaugum snéri að orkuskiptum ýmist með nýlögnum eða útskiptingu á dreifiveituspennum.

Hafnarfjörður, Garðabær og Álftanes
Rekstur rafmagnsdeildarinnar í Hafnarfirði gekk vel þrátt fyrir miklar annir. Uppbygging og vöxtur hefur verið mikill á svæðinu á síðustu fimm árum og var áframhaldandi vöxtur á árinu, bæði í íbúabyggð og einnig hefur atvinnuvöxtur í bænum verið umtalsverður. Starfsfólk svæðisins var jafnframt dyggur stuðningur við starfsstöð fyrirtækisins í Reykjanesbæ þegar náttúruhamfarir höfðu áhrif á starfsemina. Mikill tími starfsfólks sem tilheyrir starfsstöðinni í Hafnarfirði fór í verkefni á Suðurnesjum en vel tókst að lágmarka röskun á þjónustusvæði fyrirtækisins í Hafnarfirði.
Unnið var markvisst að styrkingum rafdreifikerfisins á þjónustusvæðis þess í Hafnarfirði, Garðabæ og Álftanesi og þar með talið að undirbúningi nýrrar aðveitustöðvar, sem mun verða staðsett við Kaplahraun. Hafist var handa við 36 kV háspennustrengslagnir í tengslum við það. Einnig var farið í ýmsar 11 kV háspennustyrkingar víðs vegar um bæinn og fjölda dreifistöðva ýmist bætt við kerfið eða endurnýjaðar í takt við þarfir samfélagsins.
Átak var í spennubreytingum líkt og á öðrum þjónustusvæðum fyrirtækisins. Framkvæmdar voru breytingar á 158 heimtaugum húsa fyrir 275 viðskiptavini.

Vestmannaeyjar
Rekstur rafmagnsdeildarinnar í Vestmannaeyjum gekk mjög vel og voru engar stórar bilanir eða umfangsmikið þjónusturof á árinu.
Á vormánuðum var skrifað undir viljayfirlýsingu um orkuskipti og aukið afhendingaröryggi í Vestmannaeyjum. Með henni er það yfirlýst markmið að stefna að orkuskiptum í Vestmannaeyjum. Landsnet mun leggja tvo nýja rafstrengi til Vestmannaeyja til að mæta aukinni orkuþörf og auka afhendingaröryggi. Þá munu HS Veitur fjárfesta í raforkuinnviðum til að tengja nýju rafstrengina við dreifikerfi HS Veitna, sem er forsenda þess að þeir nýtist heimilum og fyrirtæjum í Vestmannaeyjum við orkuskipti og vöxt atvinnulífs.
Helstu verkefni á árinu fólust í að klára bráðabirgðatengingu á 33kV streng fyrir notanda sem er í Viðlagafjöru. Endurnýjaðar voru þrjár dreifistöðvar og byrjað á tveimur til viðbótar. Eins var unnið að spennubreytingum og voru 23 hús spennubreytt.

Árborg
Rekstur rafmagnsdeildarinnar í Árborg gekk einkar vel á árinu og vann starfsfólk ötullega að því að halda bæði uppi þjónustustigi ásamt því að styrkja kerfin bæði í tengslum við þéttingu byggðar, miðbæjaruppbyggingu sem og í tengslum við orkuskipti í samgöngum.
Á Selfossi hefur líkt og á Suðurnesjum verið hröð uppbygging stórra hleðslugarða og í tengslum við það voru afgreiddar 45 nýjar heimtaugar og þar með talið fyrir 500A, 630A og 2500A hraðhleðslustöðvar.
Raforkunotkun 2024
Innviða uppbygging 2024
Rekstrartruflanir 2024
Snjallvæðing
Á árinu var klárað að innleiða rafmagns snjallmæla hjá öllum viðskiptavinum HS Veitna
og varð þar með fyrsta veitufyrirtækið á Íslandi til að klára þá vegferð !
Með snjallmælavæðingunni greiða viðskiptavinir í hverjum mánuði eftir raun notkun en ekki áætlun líkt og áður tíðkaðist og geta nú fylgst með notkuninni sinni inn á mínum síðum á vefsíðu HS Veitna. Að sama skapi þarf ekki lengur að skila inn álestri líkt og í fyrra fyrirkomulagi og nýtist því snjallmælavæðingin viðskiptavinum HS Veitna vel.
Snjallvæðing veitukerfa
Á árinu var jafnframt unnið að frekari greiningum í tengslum við snjallvæðingu veitukerfa. Þar með talið var lagt af stað í þróunarverkefni sem varðar greiningar á háspenntum raforkukerfum HS Veitna. Til þess er notaður hugbúnaður frá PowerFactory og er tilgangurinn með verkefninu að fá yfirsýn yfir núverandi dreifigetu háspennta dreifikerfisins miðað við núverandi notkun sem og yfirsýn yfir framtíðarþarfir að teknu tilliti til áætlana um íbúaþróun, orkuskipti í samgöngum, tenginga stærri viðskiptavina og fleira.