Starfsemin
Fjármálasvið HS Veitna samanstendur af þremur deildum sem eru fjármáladeild, innkaupa- og birgðadeild ásamt fasteigna- og viðhaldsdeild. Sviðið vinnur þvert á allt fyrirtækið.
Fjármáladeild
Á fjármáladeild HS Veitna starfa tveir sérfræðingar í fjármálum auk aðalgjaldkera, sérfræðings í orkureikningagerð, sérfræðings í gagnagreiningum og forstöðumanns fjármála og viðskiptaþróunar.
Helstu verkefni deildarinnar eru fjárhagsáætlunarvinna, uppgjör félagsins, reikningagerð, móttaka reikninga, greiðslumóttaka og greiðslur reikninga en önnur almenn vinna að fjármálum fyrirtækisins er allnokkur. Lögð er áhersla á að allir reikningar sem berast fyrirtækinu séu lesnir inn daglega og rafrænt og settir í samþykktarferli því fyrirtækið leggur mikla áherslu á að bókhald sé fært sem næst rauntíma. Rekstur fyrirtækisins gekk vel líkt og undanfarin ár þrátt fyrir áföll á borð við síendurteknar jarðhræringar á Suðurnesjum og er fjárhagsstaða fyrirtækisins sterk líkt og sjá má í eftirfarandi samantekt:
Á árinu jókst notkun á Power BI verulega og hefur það stóraukið aðgengi og skilning fyrirtækisins að gögnum með notkun viðskiptagreindar. Yfir hundrað Power BI skýrslur eru í notkun í daglegum rekstri hjá stjórnendum og starfsmönnum félagsins. Notkun gagnateninga er enn þó nokkur enda býður slík nálgun upp á mjög ítarlegar greiningar niður í smæstu einingar rekstursins.
Á árinu 2023 hafði einnig verið lögð umtalsverð vinna í samvinnu við rafmagnssvið við greiningar á raforkudreifikerfinu með notkun viðskiptagreindar þar sem horft var á raungögn frá snjallmælum og herma ofan á gögnin þá auknu raforkunotkun sem yrði ef til þess kæmi að rafkynda þyrfti húsnæði í stað þess að hita þau með hitaveituvatni. Nýttist sú grunnvinna þegar á reyndi við heitavatnsleysi á Suðurnesjum í febrúar 2024. Hér má sjá dæmi um álagsgreiningu og áhrif aukinnar rafmagnsnotkunar:
Fjármáladeild er einnig þáttakandi í verkefni við greiningu á áhrifum orkuskipta á rekstur fyrirtækisins, þá bæði með tilliti til aukins fjárfestingaþunga við uppbyggingu á innviðum ásamt væntum tekjum í tengslum við aukna orkunotkun eftir áralangar greiningar á áhrifum þeirra á rafdreifikerfin. Það endurspeglast að mjög miklu leyti í 5 ára áætlun fyrirtækisins sem lögð var fram á haustmánuðum 2023 þar sem þungi í fjárfestingum innviða í raforkudreifikerfinu er orðinn umtalsverður. Áætlunin er einnig í stöðugri endurskoðun út frá þeim greiningum.
Innkaupadeild
Á innkaupadeild starfar deildarstjóri innkaupa- og birgðadeildar, en ásamt honum starfa einnig sviðstjóri fjármálasviðs og forstöðumaður viðskiptaþróunar að völdum verkefnum innan innkaupadeildarinnar.
HS Veitur notast við rafrænt beiðnakerfi frá Símanum, en það tók við af gamla beiðnaheftinu sem var í notkun. Þessi lausn hefur reynst fyrirtækinu vel og einfaldar eftirlit og eykur skilvirkni, ásamt minni pappírsnotkun.
Helstu verkefni deildarinnar eru að sinna innkaupum en þau skiptast í innlend og erlend innkaup. Einnig eru samskipti við birgja stór þáttur í þessu starfi ásamt því að gera verðkannanir og framkvæma útboð þegar við á. Starfsemi innkaupastjórahóps Samorku, sem HS Veitur eiga fulltrúa í gekk með ágætum árið 2024, en farið var í útboð á dreifispennum á árinu. Ásamt HS Veitum í útboðinu voru RARIK, Norðurorka og Veitur. Ákveðið var að semja við Fagkaup fyrir hönd spænska framleiðandans IMEFY og gildir sá samningur næstu 5 árin.
Innlend innkaup eru rúmlega 98% af öllum innkaupum deildarinnar, erlendar pantanir voru 23, innlendar pantanir 1.363.
Bílafloti HS Veitna telur 58 bíla í dag. Vegferðin að skipta yfir í rafmagnsbíla heldur áfram hjá fyrirtækinu, en þeir telja nú 67% af öllum bílaflota HS Veitna.
HS Veitur hafa einnig komið upp 8 hraðhleðslustöðvum í Reykjanesbæ,4 í Hafnarfirði, 2 í Árborg, 2 í Vestmannaeyjum.
Birgðadeild
Fimm birgðaverðir eru í fullu starfi og einn í hlutastarfi. Birgðageymslur fyrirtækisins eru sem áður fjórar, þ.e. í Reykjanesbæ, Hafnarfirði, Vestmannaeyjum og í Árborg.
Afgreiðslur af öllum lagerum HS Veitna árið 2024 voru 9.498 sem er tæplega 2% fækkun frá fyrra ári. Afgreiðslur í Reykjanesbæ voru 5.511, sem er 1.5% fækkun frá fyrra ári. Í Hafnarfirði voru 2.522 afgreiðslur sem er 4.2% fækkun milli ára, í Árborg voru 364 afgreiðslur sem er 26.8% fjölgun á milli ára, í Vestmannaeyjum voru 1.101 afgreiðsla sem er 3.6% fækkun milli ára.
Bókfært verð vörubirgða HS Veitna í árslok nam 929 m.kr. samanborið við 814 m.kr. í upphafi árs, sem er um 13% hækkun. Vinna í kringum jarðhræringarnar í Grindavík hefur sett mörg verk á bið sem þýðir að framkvæmdir hafa gengið hægar en gert hafði verið ráð fyrir og efni situr ónotað á lager. Það ásamt hækkandi vöruverði skýrir aukningu á birgðum á milli ára.
Áframhaldandi vinna við eftirlit á hámarki og lágmarki á öllum vörum í birgðakerfinu hjá fyrirtækinu hélt áfram með góðum árangri. Kerfið er í stöðugri þróun og einfaldar það birgðavörðum að hafa betri yfirsýn yfir birgðahaldið. Vatnssvið og rafmangssvið hafa unnið áfram við skilgreiningu á öryggisvörum fyrirtækisins, en vonir standa til að þeirri vinnu ljúki á árinu 2025.
Birgðatalningar voru framkvæmdar á öllum lagerum félagsins og áfram er unnið að förgun á gömlu og úreltu efni. Töluvert af efni hefur verið sent í förgun og heldur sú vinna áfram á árinu 2025. Enn stendur yfir vinna á endurbótum og endurskipulagningu á birgðalagernum okkar í Reykjanesbæ og gengur sú vinna vel.
Sjálfvirknivæðing á lagerum HS Veitna stendur enn yfir, skannakerfi var þróað sem nýtist vel til að skrifa út vörur á lagernum hjá okkur. Þetta eykur á nákvæmni í lagerhaldi ásamt því að fækka mistökum í skráningu. Árið 2025 höfum við sett okkur þau markmið að hefja innleiðingu á 5S kerfinu, en sú skipulagsaðferð á rætur sínar að rekja í japönskum framleiðsluaðferðum. Markmiðið er að minnka sóun, bæta skilvirkni og skapa hreint og öruggt vinnuumhverfi.
Fasteigna- og viðhaldsdeild
Starfsmenn viðhaldsdeildar eru þrír, deildarstjóri fasteigna og viðhaldsdeildar og tveir aðrir trésmíðameistarar. Breytingar urðu á viðhaldsdeild á árinu þegar einn starfsmaður hætti og ráðið var í hans stað.
Deildin sinnir ýmsum fjölbreyttum viðhalds- og nýsmíðaverkefnum. Helsta verkefnið ár hvert er árlegt eftirlit með aðveitu- dælu og dreifistöðvum. Eftirlitið felst í því að farið er einu sinni á ári í kerfisbundna yfirferð til þrifa, eftirlits og mælinga. Niðurstöður eftirlits og mælinga eru skráðar og notaðar síðar til úrvinnslu við viðhald eignanna og skipulagningu viðhalds. Viðhaldsdeild standsetur einnig nýbyggðar dreifistöðvar áður en þær fara í rekstur og var sautján slíkum lokið á árinu. Áætlað er að 20 nýjum stöðvum verði komið fyrir á árinu 2025.
Unnið var við lagfæringar og endurbætur í mörgum dreifi- og aðveitustöðvum á veitusvæðunum og þannig haldið áfram vinnu er verið hefur í gangi undanfarin ár. Með skipulagðri eftirfylgni á ástandi eigna hefur dæmingum í kjölfar eftirlits fækkað til muna sem aftur gefur vísbendingu um betra ástand eigna og búnaðar. Teknar voru út um 600 dreifistöðvar, 24 aðveitustöðvar, dælustöðvar og aðrar eignir vatnsdeildar sem eru samtals 32 auk annarra eigna fyrirtækisins sem eru 13 talsins.
Á árinu hófust framkvæmdir við breytingar á höfuðstöðvum félagsins að Brekkustíg og standa þær enn yfir í upphafi árs 2025. Þau verkefni sem starfsmenn deildarinnar annast ekki eru ýmist boðin út eða unnin af iðnaðarmönnum samkvæmt samningsbundnum töxtum. Deildarstjóri fasteigna- og viðhaldsdeildar hefur umsjón með og annast samskipti við slíka verktaka/iðnaðarmenn og hefur eftirlit með vinnu þeirra. Enginn skortur var á verkefnum enda er ætíð lögð mikil áhersla á að húseignir fyrirtækisins séu í sem bestu ástandi.
Allar fasteignir starfsstöðva heyra undir fasteigna og viðhaldssvið og hefur verið aukið við eftirlit með viðhaldi með því að setja allar starfstöðvar í DMM viðhaldskerfi ásamt tilheyrandi gátlistum. Einnig eru öryggismál vel yfirfarin í öllum starfsstöðvum fyrirtækisins.