Ávarp forstjóra

HS Veitur eru samfélagslega mikilvægt innviðafyrirtæki og það sýndi sig svo sannarlega á árinu 2024.
Starfsfólkið okkar vann þrekvirki við að halda uppi þjónustustigi í Grindavík þrátt fyrir eldsumbrot og endurteknar jarðhræringar og ekki síður þegar heitavatnslaust varð í Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ og Vogum er Njarðvíkuræð skemmdist vegna eldsumbrota. Þá hefur gott samstarf viðbragðsaðila á svæðinu, Almannavarna og stjórnvalda skilað ótrúlegum árangri í barráttunni við náttúruöflin.
Þrátt fyrir aukið álag á starfsemina vegna þessa tókst vel til við að halda uppi hefðbundnum rekstri og þjónustu HS Veitna, sem felst í því mikilvæga hlutverki að færa viðskiptavinum okkar aðgang að lífsgæðum á öllum okkar þjónustusvæðum. Fjárhagsleg afkoma var þrátt fyrir allt ásættanleg í ljósi aðstæðna og má flokka það sem varnarsigur.
Stór áfangi náðist á árinu þegar HS Veitur kláruðu innleiðingu á snjallmælum fyrst íslenskra veitufyrirtækja og greiða viðskiptavinir nú eftir notkun en ekki áætlun og geta fylgst með notkun sinni á heimasíðu fyrirtækisins.
Þjónustusvæði HS Veitna eiga það öll sameiginlegt að á þeim hefur verið mikill vöxtur bæði íbúa og atvinnulífs á síðustu árum. Í því felst mikil áskorun fyrir veitufyrirtæki. Starfsfólk okkar hefur unnið markvisst að því að mæta núverandi þörfum viðskiptavina ásamt því að undirbúa veitukerfin sem best fyrir þarfir framtíðarinnar.
Á árinu var unnin stefnumótun á vegum stjórnar og farið í innri stefnumótun þar sem starfsfólk fyrirtækisins tók þátt í að greina hvað er gott og hvað betur mætti fara. Í kjölfarið var ráðist í skipulagsbreytingar og nýtt skipurit tók gildi um áramótin.
Í ólgusjó óvæntra atburða hafa HS Veitur gert það sem þarf til að sinna þörfum viðskiptavina á Suðurnesjum, í Hafnarfirði, Garðabæ, Árborg og í Vestmannaeyjum. Við munum við halda áfram á þeirri braut.
Framtíðin er björt hjá HS Veitum.
Stiklað á stóru
Lykiltölur úr rekstri (m.kr.)
Rekstrartekjur
10.533,5
Rekstrargjöld
6.713,3
Rekstrarhagnaður-EBITDA
3.820,2
Hagnaður ársins
1.298,3
Rekstrarafkoma-EBIT
2.638,1
Fjármagnsliðir samtals
1.057,6
Hagnaður fyrir skatta
1.580,5
Tekjuskattur
282,1