Chat with us, powered by LiveChat
Fara á efnissvæði

Starfsemin /   Rafmagnssvið Vatnssvið Mælar Fjármálasvið Skrifstofa forstjóra Starfsmannafélag HS Veitna

Rafmagnssvið

Rafmagnssvið HS Veitna þjónustar yfir 87 þúsund íbúa og fjölda fyrirtækja á dreifiveitusvæði rafmagnsþjónustu fyrirtækisins. Einingin er með starfsstöðvar á Suðurnesjum, í Hafnarfirði, Vestmannaeyjum og í Árborg. 

Rekstrartruflanir

Garður

Suðurnes

Rekstur rafmagnsdeildarinnar á Suðurnesjum gekk vel á árinu. Unnið var að uppbyggingu íbúðarhverfa í Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ, Vogum og í Grindavík. Framkvæmdaráætlun stóðst að mestu leiti og tókst almennt vel að klára verk á tilsettum tíma. Tveir starfsmenn létu af störfum fyrri hluta árs en ekki var endurráðið í þær stöður. 

Í upphafi árs varð stór bilun á Suðurnesjalínu 1 sem er í eigu Landsnets. Straumleysið varði í þrjár klukkustundir á öllu Suðurnesja svæðinu meðan Landsnet lagfærði bilaðan eldingarvara. Minnti atvikið á mikilvægi þess að fá Suðurnesjalínu 2 í gagnið. Um haustið fór náttúruvá á Reykjanesi að hafa áhrif á starfið. Var áhersla á að uppfæra viðbragðsáætlanir og í tengslum við það farið í greiningarvinnu á rafmagnsveitukerfi út frá ýmsum sviðsmyndum og þar með talið ef heitt vatn myndi hætta að berast frá Svartsengi. Út frá þeirri vinnu var farið í ýmsar styrkingar á rafdreifikerfinu, þar með talið voru dreifistöðvaspennar stækkaðir á lykil stöðum, lagðir voru 12 kV strengir til að auka flutningsgetu, stærri aðveituspennir var settur upp á Fitjum, álag var fært til innan kerfisins til að þola betur mögulega áraun auk þess sem farið var í spennubreytingar úr 230V í 400V á þeim svæðum sem voru talin veikust fyrir. Í nóvember urðu svo náttúruhamfarir í Grindavík þess valdandi að verulegt tjón varð á rafmagnsdreifikerfinu í Grindavík. Jarðhræringar, jarðsig og umfangsmiklar sprungumyndanir urðu til þess að innviðir skemmdust og í einhverjum tilfellum slitnuðu hreinlega raflagnir.  Vann starfsfólk deildarinnar þrekvirki við að halda rafmagni á bænum að mestu þrátt fyrir það og komu allir heilir heim við lok dags enda áhersla lögð á ýtrustu öryggiskröfur. 

Á árinu gekk einkar vel að nýta snjallmælagögn og greiningarvinnu við ákvarðanatökur, bæði hvað varðar uppbyggingu í tengslum við orkuskipti og við verkefnavinnu í tengslum við jarðvá á Reykjanesi. Gögnin voru ekki síður mikilvæg í samvinnu við Almannavarnir og í tengslum við upplýsingamiðlun um stöðu á veitukerfum eftir hamfarirnar í Grindavík, en bærinn hafði verið rýmdur og mikilvægt fyrir íbúa að fá upplýsingar um hitaveitu og rafmagn á húsum sínum. Ljóst er að mikil tækifæri eru i frekari snjallvæðingu kerfisins. 

Hfj

Hafnarfjörður, Garðabær og Álftanes

Rekstur rafmagnsdeildarinnar í Hafnarfirði gekk vel þrátt fyrir miklar annir. Uppbygging og vöxtur hefur verið mikil á svæðinu á síðustu fimm árum og var áframhaldandi vöxtur á árinu. Starfsfólk svæðisins  voru jafnframt dyggur stuðningur við starfsstöð fyrirtækisins í Reykjanesbæ vegna náttúruvár á Reykjanesi þegar náttúruhamfarir höfðu áhrif á starfsemina þar um haustið og út árið. Mikill tími starfsfólks sem tilheyrir starfsstöðinni í Hafnarfirði fór í verkefni á Suðurnesjum en vel tókst að lágmarka röskun á þjónustusvæði fyrirtækisins í Hafnarfirði. 

Helstu verkefni ársins voru til dæmis endurnýjun á lögnum eftir að bilun varð í múffukerfi við Álfaskeið í Hafnarfirði. Framkvæmdin gekk vel og stóð upp úr hversu vel verkefnið gekk fyrir sig og voru merkingar til fyrirmyndar við framkvæmdarsvæðið með tilheyrandi öryggisgirðingum. Einnig gekk vel að afgreiða nýjar heimtaugar til viðskiptavina, sinna viðhaldi og nýframkvæmdum. Unnið var við uppsetningu á fjölda nýrra dreifistöðva og má nefna nýjar stöðvar við IKEA, Álhellu, við Fjörðinn, Ásland, í tengslum við breikkun Reykjanesbrautar o.fl. Þá var einnig unnið við lagnir í nýju Skipulagi í bæði Garðabæ og í Hafnarfirði. Eru þetta allt verkefni sem styðja við öra uppbyggingu og vöxt svæðisins. 

Ráðnir voru fjórir sumarstarfsmenn sem fengu margskonar verkefni ásamt fræðslu og þjálfun. Einnig var gengið frá ráðningu sérfræðings á rafmagnssviði til aðstoðar við hönnun, þróun og greiningarvinnu. Þá voru breytingar í lok árs þegar einn rafvirki var færður til í starfi og annar ráðinn inn í hans stað.  

Eyjar

Vestmannaeyjar

Rekstur rafmagnsdeildarinnar í Vestmannaeyjum gekk heilt yfir vel á árinu en áskoranir voru á tímabilinu frá 30. janúar til 2. ágúst vegna bilunar á sjóstreng Landsnets, Vestmannaeyjastreng 3. Áskoranirnar fólust í að halda rafmagni á bænum þrátt fyrir takmarkaða flutningsgetu rafmagns til eyjarinnar.  

Strengurinn sem bilaði er 60 MW en eftir að hann bilaði var eingöngu rafmagn að berast um Vestmannaeyjastreng 1 sem flytur um 8 MW. Síðar tókst að tengja saman tvo bilaða sjóstrengi og með því jókst flutningsgetan til Vestmannaeyja um 6 MW. Á tímabilinu á meðan Vestmannaeyjastrengur 3 var bilaður var því flutningsgetan um 14 MW samanborið við þau rúm 68 MW undir venjulegum kringumstæðum. 

Rekstur deildarinnar á meðan bilunin var fór helst í að halda rafmagni á bænum. Fluttar voru fimm varaaflsvélar til eyjarinnar  frá Landsnet sem framleiddu um 1200 kW hver og við það bættist varaaflsvél í eigu HS Veitna sem afkastar um 4 MW. Dugðu framangreindar aðgerðir fyrir forgangsorku en engin skerðanlega orka var afhent á tímabilinu. 

Vegna veðurfars var ekki mögulegt að gera við sjóstrenginn fyrr en um sumarið. Viðgerðarskip kom til Vestmannaeyja þann 1. júlí og var viðgerð lokið þann 2. ágúst. Vel gekk að halda rafmagni á bænum á tímabilinu og hlutu starfsfólk HS Veitna mikið lof fyrir frá bæði bæjarbúum og bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar fyrir það hversu íbúar urðu í raun lítið varir við bilunina. Einnig fékk starfsfólk HS Veitna mikið lof frá Landsnet fyrir góða samvinnu.  

Helstu verkefnin á árinu voru uppsetning á dreifistöð fyrir seiðaeldisstöð sem fékk 1600A heimtaug. Gengið frá dreifistöð fyrir vinnubúðir við Hrafnakletta. Gengið frá strenglögn sem liggur frá VEM-Garðar við viðlagafjöru þar sem verið var að byggja fiskeldi. Einnig fór strenglögn upp á Kirkjubæjarhraun en þar er ráðgert að koma fyrir dreifistöð sem ætluð er fyrir iðnaðarsvæði. 

Selfoss

Árborg

Rekstur rafmagnsdeildarinnar í Árborg gekk vel á árinu þrátt fyrir óvenju tíðar truflanir í háspennukerfi. Tveir háspennurofar biluðu, einn strengur bilaði og skemmdir urðu á þremur strengjum. Er um að ræða ástand sem ekki hefur haft áhrif á starfsemi HS Veitna í Árborg áður. Var kerfið nokkuð veikt á tímabili um haustið þegar öll þessi atriði voru í gangi í einu.

Helstu verkefni á árinu voru að skipta um tvo háspennuskápa, annar var skipulagt viðhald en í hinu tilvikinu bilaði rofi þannig að skipta varð um rofasettið. Dreifistöð var færð út úr húsi Byggðasafns Árnessýslu á Eyrarbakka ásamt því að strengir voru lagðir í nýja stöð á sömu lóð. 

Um haustið hófust framkvæmdir við nýja dreifistöð ásamt strenglögnum sem er ætlað að anna einum af stærstu rafbíla hleðslugörðum landsins. Þá var áframhaldandi vinna við að koma stýringum á gatnalýsingu út úr dreifistöðvum. Var það klárað bæði á Eyrarbakka og Stokkseyri. 

Gengið var frá einni fastráðningu í deildina ásamt einni sumarráðningu en viðkomandi kom einnig til starfa í desember mánuði. 

Rafmagnsöryggismál

Öryggismál eru hávegum höfð hjá HS Veitum. Undir rafmagnsöryggismál hjá fyrirtækinu falla skoðanir á raforkuvirkjum og rafmagnsöryggis stjórnunarkerfi rafveitu fyrirtækisins. Hlutverk rafmagnsöryggismála er að hafa eftirlit með vörnum gegn hættu og tjóni af raforkuvirkjum og truflunum af völdum starfrækslu þeirra. 
Á árinu 2023 voru framkvæmdar 13 rafskoðanir á höfuðborgarsvæðinu, 21 á Suðurnesjum, 4 á Árborgarsvæðinu og 3 í Vestmannaeyjum.

Einnig voru framkvæmdar ytri úttektir á nýjum raforkuvirkjum hjá HS Veitum og sjá skoðunarstofur um þær úttektir.

Afgreiðsla athugasemda frá skoðunarstofu gengu ágætlega og eru þær afgreiddar í samráði við verkstjóra rafmagnsdeildar á hverju starfssvæði fyrir sig.

Á árinu framkvæmdu einnig fulltrúar á vegum Húsnæðis- og Mannvirkjastofnunnar úttekt á rafmagnsöryggisstjórnunarkerfi rafveitu og innra eftirliti með spennugæðamælingum sem framkvæmd er að kröfu Orkustofnunnar.

Orkuskiptagreiningar

HS Veitur hófu þá vegferð að innleiða snjallmæla á árinu 2015. Byggt á gögnum úr snjallmælum er mögulegt að áætla hvaða áhrif orkuskipti hafa bæði haft og munu hafa til lengri tíma litið á rafdreifikerfi á þjónustusvæðum fyrirtækisins. Lögð hefur verið áhersla á góðan undirbúning í tengslum við innviðauppbyggingu til framtíðar í tengslum við full orkuskipti.

Áframhaldandi greiningar vegna orkuskipta voru unnar á árinu 2023. Var þeim skipt upp í fjóra flokka; núverandi staða (NS), heimilisbifreiðar (OS1), fyrirtækjabifreiðar (OS2), bílaleigur (OS3). Heildarmyndin gefur til kynna hver möguleg áhrif orkuskipta verða í tengslum við rafmagns innviði HS Veitna. 
Rannsóknarvinna var gerð og tekin saman bifreiðalisti með bifreiðum sem eru komnar á markað í heiminum, sem eru rafknúnar og í sama þyngdarklassa og þær bifreiðar sem eru notaðar á Íslandi. 
Útfrá fjölda bifreiða, þyngdarklassa, áætlaðri staðsetningu, áætluðum vinnudögum, fjölda keyrða kílómetra á ári var áætlað hver afl- og orkuþörfin yrði fyrir fyrirtækin, en ein af megin forsendum sem gefnar eru við greininguna er að starfsfólk fyrirtækja munu kjósa að hlaða heima svo bifreiðarnar séu hlaðnar og til taks hvern vinnumorgun.

Farið var í frekari greiningavinnu þar sem athugað var hvort markaðsstýring gæti jafnað og dreift út álagstoppum innan kerfisins og voru niðurstöðurnar í tvennu lagi; OS2 stýrt-, OS2 óstýrt álag.  Niðurstaðan var að ekki er mikill marktækur munur vegna þessa sem skýrist m.a. að fyrirtæki þurfa að láta reksturinn ganga sinn eðlilega gang og því er ekki mikill munur á afltoppum stýrð og óstýrð álags. Til þess að munurinn yrði teljandi þyrftu fyrirtæki að fjölga bifreiðum (ein heima að hlaða á meðan hin er í rekstri).
Snjallmælagögn voru notuð til greininga ásamt Scadamæligögnum. Snjallmælagögnin eru meðaltalsgildi fyrir hvern klukkutíma, Scadamæligögnin innihalda mun nákvæmari mælingar, augnbliksálag og mæla því alla álagstoppa sem myndast innan klukkutímans. Scadagögn voru notuð til þess að hlutfallslega leiðrétta álagstoppa snjallmæligagnanna. Niðurstöður OS2 greininga var hér eftir bætt ofan á NS og OS1 til þess að fá heildarmynd af orkuskiptum OS1 og OS2 hjá HS Veitum. 

Greiningar þessar voru einnig teknar yfir í háspennukerfi HS Veitna og var afurðin sú að greina hvar væri þörf á frekari styrkingum í dreifikerfi HS Veitna vegna orkuskipta.

Sami grunnur og notaður var fyrir orkuskiptagreiningarnar nýttist þegar viðbragðsáætlanir voru unnar í tengslum við jarðvá á Reykjanesi eftir að jarðhræringar fóru að gera vart við sig við Svartsengi. Með snjallmælagögnum og greiningartólinu var mögulegt að áætla hvaða áhrif rafkynding hefði á rafdreifikerfi HS Veitna á Suðurnesjum. Kom út úr þeirri vinnu að mikilvægt yrði að setja meginreglu um hámark fyrir rafkyndingu á hverja íbúð ef heitt vatn myndi hætta að berast úr Svartsengi og grípa þyrfti til rafkyndingar. Einnig var með þessu áætlað hvar veikleikar væru í kerfinu og í kjölfarið var ráðist í styrkingar, sbr. umfjöllun rafmagnsdeildarinnar á Suðurnesjum. 

Vatnssvið

166B0704

Vatnssvið HS Veitna þjónustar yfir 35 þúsund íbúa og fjölda fyrirtækja á dreifiveitusvæði vatnsþjónustu fyrirtækisins. Einingin er með starfsstöðvar á Suðurnesjum og í Vestmannaeyjum. 

Garður

Suðurnes

Rekstur vatnsdeildarinnar á Suðurnesjum gekk vel yfir árið. Starfsfólk sviðsins tók virkan þátt á fagþingi Samorku um vorið á Selfossi þar sem teymi HS Veitna sigraði flestar greinar veitukeppninnar. 

Helstu áskoranir ársins voru tengdar jarðvá á Reykjanesi þar sem jarðhræringar, jarðsig og sprungu myndanir ollu skemmdum á innviðum hitaveitunnar í Grindavík. Starfsfólk sviðsins vann þrekvirki við krefjandi aðstæður við að halda uppi þjónustunni. Á sama tíma voru verkefni tengd daglegum rekstri ekki látin sitja á hakanum og tókst vel til við að halda uppi þjónustustigi þrátt fyrir aukið álag tengt aðstæðum í Grindavík. 

Helstu verkefni ársins voru ýmsar stærri tengingar við bæði hitaveitu og kalt vatn, s.s. fyrir nýju Stapahöllina, íbúagötur í Grænubyggð í Vogum, hjúkrunarheimilið við Njarðarvelli, ýmis stærri atvinnuhúsnæði á Flugvöllum og tenging nýs grunnskóla við malarvöllinn í Keflavík. Þá var Grindavíkuræðin, stofnlögn hitaveitu, endurnýjuð á árinu. Einnig var sett upp ný hitaveitudælustöð við Unnardal í innri innri Njarðvík og bætt við tveimur hraðabreytum og varaaflsstöð endurnýjuð fyrir kalt vatn í Grænás. Á árinu var jafnframt farið í tilraunaverkefni í lekaleit með dróna sem kom vel út og mikil tækifæri eru í að þróa þá aðferðafræði og tækni frekar.  

Í tengslum við viðbragðsáætlanir fyrirtækisins tengt jarðvá á Reykjanesi var farið í stækkun á vatnsbóli við Árnarétt í Garði. Gekk verkefnið vonum framar og er nú varavatnsbólið tilbúið og mun nýtast bæði íbúum og atvinnulífi, utan stórnotendum, í Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ ef á reynir.  

Eyjar2

Vestmannaeyjar

Hitaveita

Rekstur hitaveitunnar í Vestmannaeyjum gekk heilt yfir vel á árinu þrátt fyrir áskoranir tengt því að skerðingar voru í rafmagni fyrir kyndistöðina á meðan sæstrengur Landsnets var bilaður. Þrátt fyrir það stóðu HS Veitur vaktina við að halda uppi góðri þjónustu og tryggðu viðskiptavinum fullt aðgengi að heitu vatni. Á meðan sæstrengurinn var bilaður varð að slökkva á rafskautakatli og sú varmaorka sem hann undir venjulegum kringumstæðum afhendir var framleidd með olíukötlum, með tilheyrandi kostnaðarauka. 

Gert var við nokkur inntök og lokið var við að skipta út öllum stál lofttúðum og eru nú allir 140 brunnarnir í dreifikerfinu með viðhaldsfríum plasttúðum. Rekstur sjóvarmadælustöðvarinnar gekk tæknilega séð vel að öllu leiti nema vandamál hafa verið með endingartíma á legum í pressum. Þegar skipt er um legur er pressan ekki í rekstri og þar með minni heitavatnsframleiðsla og meira álag á rafskautakatli. Var unnið að úrbótum á því á árinu að koma viðhaldsmálum þessu tengdu í ásættanlegt horf ásamt því að semja um verð á varahlutum. Er niðurstaða þeirrar vinnu sú að nú tekur viðhaldsvinna skemmri tíma og er almennt séð hagkvæmari. Á árinu var jafnframt lokið við að endurnýja stjórnbúnað í tveimur olíukötlum. 

Líkt og undanfarin ár var mikill áhugi bæði innlendra og erlendra gesta á sjóvarmadælustöðinni. Sú tækni að nota varmann úr um 7° heitum sjónum til að framleiða heitt vatn og spara þannig rafmagn þykir merkileg á alþjóðavísu. Er hér mynd af Norrænum umhverfisblaðamönnum sem komu í heimsókn á árinu: 

Hópur Í Eyjum

Vatnsveita

Rekstur vatnsveitunnar í Vestmannaeyjum gekk heilt yfir vel á árinu. Rekstur stofnæðar í landi gekk með ágætum. Fjórar bilanir urðu og loka varð fyrir allt rennsli til Vestmannaeyja á meðan viðgerð stóð. Miðlunartankur við Löngulág sá þó til þess að enginn vatnsskortur varð i Eyjum þrátt fyrir það. Þá var lokið við að setja upp og tengja dælu ásamt hraðabreyti við dælustöðina á Landeyjarsandi. Kemur hún í staðinn fyrir 54 ára gamla dælu. 

Það var hins vegar áfall fyrir bæði reksturinn og allt samfélagið í Vestmannaeyjum þegar Huginn VE 55 olli stórtjóni á neðansjávarlögninni sem flytur vatn til eyjunnar frá landi. Um alvarlegan atburð er að ræða þar sem þetta er eina leiðslan sem flytur neysluvatn frá landi til Eyja. Samkvæmt samningi HS Veitna við Vestmannaeyjabæ, sem er eigandi lagnarinnar, reka HS Veitur neðansjávarlögnina í tengslum við vatnsveituna sem leigutaki og hafa fyrirframgreitt fyrir afnotin til ársins 2044, sem var áætlaður endingartími lagnarinnar. 

Eftir atburðinn sem átti sér stað þann 17. nóvember 2023 unnu HS Veitur ötullega að því að tryggja að unnt væri að flytja vatn um skemmdu lögnina  til að fullnægja vatnsþörf í sveitarfélaginu. Lögð áhersla á það við eiganda lagnarinnar að mikilvægt er að ráðist verði í viðgerð á henni. Einnig voru viðbragðsáætlanir fyrirtækisins uppfærðar ef til þess kæmi að kalt vatn hætti að berast um lögnina. Við lok árs var vinna við að festa skemmdu lögnina langt komin en undirbúningur við viðgerð á lögninni i uppnámi þar sem eigandi lagnarinnar vísaði ábyrgðinni á viðgerðinni með öllu frá sér. 

Aukning varð á vatni sem dælt var til Vestmannaeyja á árinu miðað við árið á undan: 

Mælar

Raforkumælar

Í lok árs 2023 var heildarfjöldi raforkumælar í dreifikerfi HS Veitna kominn í 44.978 mæla og hefur mælafjöldi aukist um 4,3% á milli ára. Má þar nefna að settir voru upp 1.350 raforkumælar í nýjar veitur í Hafnarfirði á árinu. Mælaskipti á árinu hafa gengið ágætlega og eru 703 raforkumælar eftir í mælaskiptum í lok árs, þar af 47 raforkumælar staðsettir í Grindavík sem ekki hefur veri hægt að skipta um. Mælaskiptum var lokið á árinu í Árborg og Vestmannaeyjum en munu halda áfram í Hafnarfirði og Suðurnesjum á árinu 2024. Safnstöðvum hefur fjölga nokkuð með fjölgun raforkumæla í veitukerfi fyrirtækisins. 

Vegna áætlana símafyrirtækja að leggja niður 2G/3G gsm símakerfið var farið af stað á árinu í að uppfæra gsm módem í safnstöðvum og raforkumælum og er gert ráð fyrir að þeirri uppfærslu verði lokið fyrir árslok 2024. Fjöldi raforkumæla sem skipt var um er 3.099 mælar og er heildarfjöldi snjallmæla komin í 42.252 eða 98,4% af heildar mælafjölda í dreifikerfi HS Veitna. Af þeim 42.252 snjallmælum sem upp eru komnir eru 40.302 snjallmælar komnir með daglegan álestur eða tæplega 95,4%.

Vatnsmælar

Í lok árs 2023 var heildarfjöldi vatnsmæla í veitukerfi HS Veitna kominn í 11.592 mæla og hefur mælafjöldi aukist um 1,42% á milli ára. Góður árangur hefur náðst í að bæta álestur og hefur vinna í söfnunarkerfum og uppsetningu MUC eininga í raforkumæla skilað mestum árangri. Á Suðurnesjunum er daglegur álestur um 99,2% og í Vestmannaeyjum er daglegur álestur um 96,8%. Í lok hvers mánaðar er farið í þá vatnsmæla sem ekki eru að skila daglegum álestri og álestur sóttur með WalkBY og READy söfnunarbúnaði. Safnstöðvum hefur lítillega fjölgað með fjölgun vatnsmæla í veitukerfi fyrirtækisins. Af þeim 11.592 snjallmælum sem upp eru komnir eru 10.209 snjallmælar komnir með daglegan álestur eða 98,5%.

Fjármálasvið

Hs Veitur OZZO 2024 0125

Fjármálasvið HS Veitna samanstendur af þremur deildum sem eru fjármáladeild, innkaupa- og birgðadeild ásamt fasteigna- og viðhaldsdeild. Starfsfólk sviðsins er 15 ásamt einu hlutastarfi til viðbótar. Sviðið vinnur þvert á allt fyrirtækið. 

Fjármáladeild

Á fjármáladeild HS Veitna starfa tveir sérfræðingar í fjármálum auk aðalgjaldkera, sérfræðingi í gagnagreiningum og forstöðumanns fjármála og viðskiptaþróunar. 

Helstu verkefni deildarinnar eru fjárhagsáætlunarvinna, uppgjör félagsins, móttaka reikninga, greiðslumóttaka og greiðslur reikninga og önnur almenn vinna að fjármálum fyrirtækisins. Lögð er áhersla á að að bókhald sé fært sem næst rauntíma. Á árinu bárust um 92% af öllum reikningum félagsins rafrænt.

Gengið var frá ráðningu á sérfræðingi í gagnagreiningum og notkun Power BI. Kom sú sérþekking vel að gagni, bæði til að auka aðgengi og við auka skilning fyrirtækisins á gögnum með notkun viðskiptagreindar. Var sem dæmi unnið að greiningum á raforkudreifikerfinu með notkun viðskiptagreindar, sbr. umfjöllun um orkuskiptagreiningar. Einnig nýttist viðskiptagreindin viðbragðsaðilum á svæðinu á borð við almannavarnir, þar sem hægt var að greina hvaða húsnæði væri ekki að fá heitt vatn og rafmagn frá dreifikerfinu þegar hamfarirnar gengu yfir um haustið í Grindavík. 

Deildin hefur lagt áherslu á áhrif orkuskipta á rekstur fyrirtækisins, bæði með tilliti til aukins fjárfestingaþunga við uppbyggingu á innviðum ásamt væntum tekjum í tengslum við aukna orkunotkun eftir áralangar greiningar á áhrifum þeirra á rafdreifikerfin. Endurspeglast það að miklu leyti í 5 ára áætlun fyrirtækisins sem lögð var fram á árinu. 

Þá hefur verið og er enn undir stöðugri skoðun hvernig mæta má þörfum mismunandi viðskiptavina með fjölbreyttara úrvali af töxtum sem styðja betur við ný notkunarmynstur vegna hleðslunotkunar með það að markmiði að hámarka nýtingu núverandi innviða. Niðurstaða þeirra vinnu var meðal annars sú að á árinu 2023 urðu til tveir nýir taxtar sem henta hleðsluinnviðum með lélega orkunýtingu sem og viðskiptavinum með árstíðabundna notkun. 

Áframhald var á vinnu í samstarfi við rafmagnssvið við að greina notkunarupplýsingar frá snjallmælum hjá þeim viðskiptavinum sem hafa fengið slíkan búnað. Um 97% viðskiptavina eru með snjallmæla í dag og um 91% viðskiptavina með snjallmæla sem skila óslitnum klukkustundagögnum daglega. Gögn sem slík eru verðmæt bæði fyrirtækinu sem og viðskiptavinum. Mögulegt er að greina álag niður á einstaka dreifistöðvar, strengi og götuskápa í raforkudreifikerfinu. Fjöldi rafbíla jókst umtalsvert á árinu 2023 og var sú aukning nokkuð vel greinanleg með þeim álagsgreiningum sem fyrirtækið hefur verið að nýta sér með snjallmælagögnunum.

Innkaupadeild

Í innkaupadeild starfar deildarstjóri innkaupa- og birgðadeildar og ásamt honum vinnur sviðsstjóri fjármálasviðs og forstöðumaður fjármála og viðskiptaþróunar að völdum verkefnum innan deildarinnar. 

Á árinu voru innleiddar rafrænar beiðnir. Lausnin sem var valin er notendavæn að því leitinu til að starfsfólk getur nú notað símtæki sín við innkaup í staðin fyrir pappírs beiðnir. Lausnin veitir jafnframt betri yfirsýn yfir öll innkaup út frá beiðnum.
Helstu verkefni deildarinnar eru að sinna innkaupum, bæði innlend og erlend innkaup. Eru samskipti við birgja stór þáttur innan deildarinnar ásamt því að gera verðkannanir og framkvæma útboð þegar við á og er þá notast við In-tend útboðskerfi sem uppfyllir alþjóðlega staðla.

Á árinu voru innlend innkaup rúmlega 99% af öllum innkaupum deildarinnar, erlendar pantanir voru 18 og innlendar pantanir 1.763. Meiri áhersla er sett á innlenda birgja og stefnan að fækka erlendum innkaupum enn frekar.

HS Veitur reka nokkuð stóran bílaflota sem telur í dag 62 bíla. Fyrirtækið hefur unnið að endurnýjun bílaflotans með umhverfisvænum bílum. Telja nú rafmagnsbílar 65% af öllum bílaflota fyrirtækisins. 

Þá hafa HS Veitur fjárfest í innviðum fyrir rafmagnsbíla við starfstöðvar fyrirtækisins og eru nú átta hraðhleðslustöðvar í Njarðvík, fjórar í Hafnarfirði, tvær í Árborg og tvær í Vestmannaeyjum. 

Starfsemi innkaupastjórahóps Samorku, sem HS Veitur eiga fulltrúa í, var með sama sniði og undanfarin ár. Innkaupahópurinn fór í þá vinnu að undirbúa sameiginlegt útboð á spennum. Er áætlað að útboðsgögn verði gefin út á nýju rekstrarári. Jafnframt var farið í útboð á rafmagnstöpum á árinu. 

Birgðadeild

Fjórir birgðaverðir eru í fullu starfi, einn í hlutastarfi auk birgðastjóra sem starfar í Reykjanesbæ. Birgðageymslur fyrirtækisins eru sem áður fjórar, þ.e. í Reykjanesbæ, Hafnarfirði, Vestmannaeyjum og í Árborg. 

Afgreiðslur af lagerum árið 2023 voru 9.663 sem er 4% aukning frá fyrra ári.
Aukning var á afgreiðslum í Njarðvík, þar voru 5.595 afgreiðslur, sem er 3% hækkun. Í Hafnarfirði voru 2.639 afgreiðslur sem er 7% hækkun milli ára, í Árborg voru 287 afgreiðslur sem er 39% fækkun milli ára, í Vestmannaeyjum voru 1.142 afgreiðslur sem er 23% hækkun milli ára. 

Birgðavirði allra lagera HS Veitna í upphafi árs var 662.221.263 m.kr. og 808.338.237 m.kr. við árslok, sem er 22% hækkun. Þetta skýrist að mörgu leyti af umframkaupum á mælum vegna þeirra óvissu sem ríkti á framleiðslu á íhlutum í kjölfar Covid ásamt miklum verðhækkunum á flestum vörum síðastliðin tvö ár.

Hafin var vinna á árinu við að stilla hámark og lágmark á allar vörur í birgðakerfi fyrirtækisins, ásamt skilgreiningu á öryggislager. Markmiðið er að betrumbæta lagerhald fyrirtækisins, auka öryggi á algengustu vörum í dreifikerfi ásamt því að ná fram hagkvæmni í birgðavirði. Vinnan er langt komin og vonir til að henni verði að fullu lokið árið 2024. Nú er stuðst við skýrslukerfi á hámarki og lágmarki sem einfaldar birgðavörðum að hafa betri yfirsýn yfir lagerhaldið.

Birgðatalningar voru framkvæmdar á öllum lagerum félagsins og er unnið að förgun á gömlu og úreltu efni. Einnig var framkvæmd talning yfir sumarið á þeim vörum sem mestar hreyfingar eru á og gekk það vel. Enn var unnið að endurbótum og skipulagningu á birgðalager í Njarðvík.

Sjálfvirknivæðing á lagerum HS Veitna stóð yfir á árinu, þ.m.t. hefur verið hannað skannakerfi sem notað er til að skrifa út vörur á lagernum. Eykur það nákvæmni í lagerhaldi ásamt því að fækka mistökum í skráningu.

Fasteigna- og viðhaldsdeild

Starfsmenn viðhaldsdeildar eru þrír, deildarstjóri fasteigna og viðhaldsdeildar og tveir aðrir trésmíðameistarar. 
Breytingar urðu á viðhaldsdeild á árinu þegar einn starfsmaður hætti vegna aldurs eftir 10 ár hjá fyrirtækinu og ráðið var í hans stað.  

Deildin sinnir ýmsum fjölbreyttum viðhalds- og nýsmíðaverkefnum. Helsta verkefnið ár hvert er árlegt eftirlit með aðveitu- dælu og dreifistöðvum. Eftirlitið felst í því að farið er einu sinni á ári í kerfisbundna yfirferð til þrifa, eftirlits og mælinga. Niðurstöður eftirlits og mælinga eru skráðar og notaðar síðar til úrvinnslu við viðhald eignanna og skipulagningu viðhalds. Viðhaldsdeild standsetur einnig nýbyggðar dreifistöðvar áður en þær fara í rekstur og var fimmtán slíkum lokið á árinu. 

Unnið var við lagfæringar og endurbætur í mörgum dreifi- og aðveitustöðvum á veitusvæðunum og þannig haldið áfram vinnu er verið hefur í gangi undanfarin ár. Með skipulagðri eftirfylgni á ástandi eigna hefur dæmingum í kjölfar eftirlits fækkað til muna sem aftur gefur vísbendingu um betra ástand eigna og búnaðar. Teknar eru út 586 dreifistöðvar, 24 aðveitustöðvar, dælustöðvar og aðrar eignir vatnsdeildar sem eru samtals 32 auk annarra eigna fyrirtækisins sem eru 13 talsins.

Þau verkefni sem starfsmenn deildarinnar annast ekki eru ýmist boðin út eða unnin af iðnaðarmönnum samkvæmt samningsbundnum töxtum. Deildarstjóri fasteigna- og viðhaldsdeildar hefur umsjón með og annast samskipti við slíka verktaka/iðnaðarmenn og hefur eftirlit með vinnu þeirra. Enginn skortur var á verkefnum enda er ætíð lögð mikil áhersla á að húseignir fyrirtækisins séu í sem bestu ástandi.
Allar fasteignir starfsstöðva heyra undir fasteigna og viðhaldssvið og hefur verið aukið við eftirlit með viðhaldi með því að setja allar starfstöðvar í DMM viðhaldskerfi ásamt tilheyrandi gátlistum.  Einnig eru öryggismál vel yfirfarin í öllum starfsstöðvum fyrirtækisins. 

120 dæmingar komu úr skoðunarferð til Vestmannaeyja sem unnar eru að mestu af starfsmönnum HS Veitna í eyjum.

Aukning hefur verið á vinnu við nýjar dreifistöðvar og tengist hún orkuskiptum. Á árinu 2023 voru smíðaðar og innréttaðar 20 nýjar dreifistöðvar.  Þetta er allnokkur vinna fyrir viðhaldsdeildina þar sem það tekur tvo einstaklinga fjóra daga að standsetja hverja stöð fyrir sig. 

Umfangsmesta útboðsverkefni deildarinnar á árinu var framkvæmd við að skipta um klæðningu á lager fyrirtækisins að Fitjum í Reykjanesbæ. 

Skrifstofa forstjóra

Rnb2

Til skrifstofu forstjóra heyra fjölbreytt verkefni sem flest eiga það sameiginlegt að hafa áhrif á það hvernig samstarfsfólki gengur að inna sín störf af hendi og hvernig viðskiptavinir upplifa HS Veitur. Samnefnarinn liggur í því að við veitum þjónustu, í öllum þeim verkefnum sem við sinnum. 

Mannauðsmál

Helstu áherslur í mannauðsmálum HS Veitna er að vera eftirsóttur vinnustaður sem laðar til sín hæft starfsfólk í öll störf. Mannauður HS Veitna er dýrmætasta auðlind fyrirtækisins og er undirstaða að árangri og velgengni. Hugað er að því að standa vörð um þekkingu, færni og vellíðan starfsfólks. 

Heildarfjöldi starfsfólks hjá HS Veitum í byrjun árs 2023 var 97 á fjórum starfsstöðvum. Meðalaldur starfsfólks í janúar 2023 var 51,8 ár og meðal starfsaldur 14,1 ár og lækkaði ögn á milli ára. Af 97 starfsmönnum eru 78 karlar og 19 konur eða um 20%.

Á árinu var áfram fylgst með líðan starfsfólks með vinnustaðagreiningu. Voru þær einnig rýndar og brugðist við sérstaklega með það að markmiði að auka enn frekar starfsánægju og traust starfsfólks. Þetta var gert þrátt fyrir að ánægja starfsfólks HS Veitna sé almennt yfir meðallagi í samanburði við vísitölu íslenskra fyrirtækja.

Síðasti hluti ársins 2023 var sérstakur að því leyti að verulegur hluti starfseminnar snérist í kringum jarðhræringar á Reykjanesskaga og eldgos ásamt þeim krefjandi verkefnum sem af því hlutust. Margir starfsmenn fyrirtækisins unnu þá langa vinnudaga undir mjög erfiðum og krefjandi aðstæðum og snérust því störf mannauðsstjóra um að hlúa að starfsfólki og styðja í þeirra störfum.  

Jafnlaunamál 
Árið 2023 hlutu HS Veitur endurvottun á jafnlaunakerfi fyrirtækisins. Gaman er að segja frá því að HS Veitur náðu markmiði sínu á liðnu ári og er aðeins 0,5% launamunur konum í vil samkvæmt launagreiningu sem framkvæmd var í september 2023.

Helstu breytingar á starfsmannahaldi árið 2023 
10 starfsmenn létu af störfum á árinu og  11 nýir starfsmenn gengu til liðs við fyrirtækið. Starfsmannavelta var því 10,3 % sem er nokkuð hærra en verið hefur undanfarin ár og kemur meðal annars til af því hversu margir hættu störfum sökum aldurs eða 8 af þeim 10 sem hættu. Þökkum við öllum þeim sem létu af störfum á árinu fyrir vel unnin störf í þágu HS Veitna, en margir af þeim höfðu unnið í áratugi hjá fyrirtækinu. Um leið bjóðum við nýja starfsmenn velkomna til starfa. 

11 sumarstarfsmenn störfuðu hjá HS Veitum á öllum starfssvæðum í sumar og eru þeim einnig færðar þakkir.

Samskipta- og markaðsmál

Árið var á heildina litið heldur óhefðbundið í markaðs- og kynningarmálum fyrirtækisins. Nýr samskipta- og markaðsstjóri kom til starfa í apríl. Var unnið að fjölmörgum verkefnum tengt kynningarmálum í samstarfi við aðrar deildir og lögð áhersla á að samræma kynningarefni fyrirtækisins. Tekin var ákvörðun um að gefa ársskýrslu út á stafrænu formi og vinna unnin við að undirbúa það. Undir eininguna falla einnig allar styrkveitingar fyrirtækisins og var gengið frá styrktarsamningum ásamt því að taka afstöðu til allra styrkbeiðna til fyrirtækisins. 

Lögð var áhersla á góð samskipti bæði innan og utan fyrirtækisins, þá sérstaklega í kringum náttúruvá og aðrar stórar áskoranir sem fyrirtækið tókst við á árinu, s.s. í tengslum við náttúruvá á Reykjanesi, löskuð veitukerfi í Grindavík og stórtjón sem varð á neðansjávarlögn til Vestmannaeyja. Innan fyrirtækisins var lögð áhersla á að upplýsa starfsfólk í gegnum annars vegar Workplace og með upplýsingafundum og lagt upp með að samræma upplýsingamiðlun milli starfstöðva. Í ytri upplýsingamiðlun var lögð áhersla á skýra og heiðarlega upplýsingagjöf. Var það gert með miðlun á bæði heimasíðu fyrirtækisins og samfélagsmiðlum sem og að stuðla að því að fjölmiðlar væru vel upplýstir og var það metið eftir atvikum hverju sinni. 

Fyrri hluta árs var unnið að ýmsum undirbúningi, samskiptaáætlunum og kynningarefni með stjórnendum fyrirtækisins um starfsemi fyrirtækisins meðal annars tengt Vestmannaeyjum, en virk málefni þar voru nokkur yfir árið. Eitt umfangsmesta verkefni ársins var síðar undirbúningur og kynning á viðbragðsáætlunum fyrirtækisins tengt náttúruvá um haustið. Gefnar voru út  leiðbeiningar og áætlanir kynntar á opnum íbúafundi þann 8. nóvember 2023. Í kjölfarið hófust miklar jarðhræringar í Grindavík og var áhersla á að halda vel utan um upplýsingagjöf tengt viðbragði fyrirtækisins og stöðu veitukerfa í bænum, sem hafði þá verið rýmdur og miklar áhyggjur íbúa af eigum sínum. Umfjöllunin fékk umtalsverða athygli og hér má sem dæmi sjá samanburð á fjölda umfjallanna í íslenskum fjölmiðlum á milli ára:

Upplýsingatækni

Rekstur ársins tengt upplýsingatækni fyrirtækisins gekk vel og lítið var um óvæntar truflanir eða bilanir í kerfum HS Veitna. Tóku HS Veitur þátt í netöryggisæfingu á vegum netöryggisráðs Samorku og var mikill lærdómur dregin af henni. 

Á árinu var unnið að viðbótum, endurbótum og viðhaldi tölvubúnaðar eins og tilefni var til. Tölvukerfin eru rekin miðlægt og í skýinu að nokkru leyti. Til upplýsingakerfa telst allur tölvuhugbúnaður, tölvuvélbúnaður og símabúnaður fyrirtækisins fyrir utan iðntölvustýringar. 

Allir netþjónar fyrirtækisins eru nú komnir í hýsingu og rekstur utan vinnustöðva HS Veitna, nema örfáir sem þurfa að vera vegna mögulegra truflana á nettengingum. Einnig var á árinu samið um rekstrarþjónustu vegna netkerfa og afritunar.

Á árinu var unnið að áframhaldandi breytingum á orkureikningakerfi vegna breytinga sem hafa verið gerðar á högun á raforkumarkaði í landinu. Þá er búið er að innleiða Rekstrarhandbók og Gæðakerfi frá Spectra sem einnig nýta sér Share Point kerfið. Einnig hefur frekari greiningarvinna verið á árinu fyrir tækifæri í notkun á Power BI forritinu með nokkrum starfshópum innan fyrirtækisins.

Deildin hefur verið rekin með fjórum stöðugildum um nokkurra ára skeið en minkaði um eitt stöðugildi á árinu.

Þjónusta

Það var í nógu að snúast hjá þjónustudeildinni á árinu og verkefnin af ýmsum toga. Meðal þeirra helstu voru skráning á heimlagnabeiðnum, mælaskiptum, notendaskiptum og ýmsum öðrum tilkynningum. Reikningagerð orkureikninga og vatnsgjalda. Álestrar og innheimta.  

Vel gekk að móttaka heimlagnabeiðnir og fylgigögn eingöngu á rafrænu formi í gegnum mínar síður. 
Tilkynningar um notendaskipti berast áfram í gegnum síma, tölvupóst og heimasíðu og dreifast nokkuð jafnt á þessar þrjár boðleiðir.

Áfram var unnið að því að fjölga símanúmerum hjá viðskiptavinum en þau eru mikilvæg til allrar upplýsingagjafar svo sem vegna vals á raforkusala, inneigna, innheimtu og tilkynninga vegna viðhaldsvinnu og bilana. 

Eftirspurn eftir stafrænni þjónustu hélt áfram að aukast á árinu. Fleiri fyrirtæki völdu rafræna reikninga með skeytasendingu og einstaklingum í kortaviðskiptum fjölgaði. Fækkun símtala og innsendra erinda milli ára gefur til kynna að viðskiptavinir eru að nýta Mínar síður, rafræna þjónustu og sjálfsafgreiðslu í auknum mæli.  
Um haustið var aukið álag á þjónustuver fyrirtækisins, bæði tengt breytingum á hitaveitu í Vestmannaeyjum og síðar tengt aðstæðum í Grindavík, þegar náttúruhamfarir höfðu áhrif á veitukerfi bæjarins og íbúar voru með skiljanlegar áhyggjur og höfðu vegna þessa ýmsar spurningar og vangaveltur sem starfsfólk þjónustuvers lögðu sig fram við að verða við eftir fremsta megni. 

Árið 2023 var krefjandi og skemmtilegt eins og undanfarin ár. Við tökum spennt á móti nýjum áskorunum og hlökkum til að halda áfram að veita góða þjónustu með gildi fyrirtækisins traust, virðingu og framfarir að leiðarljósi.

Fjöldi erinda sem komu inn til þjónustudeildar

Gæða- og skjalamál

Að reka stjórnunarkerfi samkvæmt ISO 9001 er verkefni sem snertir alla þætti fyrirtækisins. Í gæðastarfi er skuldbinding stjórnenda mikilvæg og einnig þátttaka starfsfólks til þess að tryggja gæði, bæta verkferla og auka öryggi. Gæðakerfið stuðlar að samræmdum vinnubrögðum og betri yfirsýn. Mikilvægt er að vinna að stöðugum umbótum og árangri í starfsemi, tryggja gagnsæi, hámarka framlegð og lágmarka sóun. 

ISO 9001 úttekt var framkvæmd af BSI í júní 2023 og stóðst fyrirtækið úttektina. Framkvæmdar voru fjórtán innri úttektir og þeim fylgt eftir með úrbótum. HS Veitur býr yfir góðum hóp innri úttektarmanna sem framkvæma úttektirnar af dugnaði og metnaði.
Gæðakerfið er í stöðugri þróun og lögð áhersla á öflugt umbótastarf.

Öryggis-, heilsu- og umhverfismál

Öryggismál voru í hávegum höfð hjá HS Veitum líkt og undanfarin ár. Óhefðbundnar og óvæntar aðstæður í tengslum við jarðvá á Reykjanesi kölluðu á viðbótar viðbragð, öryggisbúnað og nýja nálgun við að leysa dagleg verkefni við hættulegar og síbreytilegar aðstæður á hverjum tíma, á sem bestan og öruggastan hátt. 

Helstu verkefnin á árinu voru að innleiða „Staldraðu við“. Í því felst að áður en vinna hefst þá er farið yfir stutt áhættumat til að stuðla að öryggi starfsfólks. LMP (Læsa, merkja, Prófa) verkefnið var einnig í mótun á árinu og er áætlað að innleiðingu verði lokið á árinu 2024. Efnaskráning og utanumhald um hættuleg efni var stórbætt og unnið hefur verið að skipta út skaðlegum efnavörum. 

Neyðarstjórn HS Veitna var virkjuð á árinu og voru samtals 58 fundir haldnir. Aldrei í sögu fyrirtækisins hafa verið haldnir eins margir slíkir fundir á einu ári. Neyðarstjórn var skipuð framkvæmdastjórn fyrirtækisins ásamt fagfólki þvert á fyrirtækið og þar voru aðstæður metnar og teknar ákvarðanir í hverju tilfelli fyrir sig. 

Áhættumöt voru uppfærð reglulega yfir árið og einnig leiðbeiningar og verklagsreglur. Notkun Tetrastöðva var innleidd fyrir allt útivinnandi starfsfólk,  ásamt fjölda annarra þátta sem tiltækir voru til að stuðla að auknu öryggi, þ.m.t. aukning á fallvarnarbúnaði, gasmælum og gasgrímum. 

Ekkert slys eða næstum slys var tilkynnt hjá  HS Veitum í tengslum við náttúruvá á Reykjanesi og er sá árangur í takt við stefnu fyrirtækisins um að viðhalda öryggismenningu og að koma starfsfólki ávalt heilu heim. 

Í tengslum við áherslur fyrirtækisins í umhverfismálum er markmið að lágmarka losun á gróðurhúsalofttegundum með því að draga sem mest úr innkaupum á kolefniseldsneyti. Fyrirtækið hefur frá árinu 2018 haldið utan um skráningu á losun koltvísýrings vegna eldsneytisbruna (umfang 1). Á árinu 2023 var losun ökutækja fyrirtækisins 94 tonn en losun vegna orkuframleiðslu 5012 tonn. Mikil óhjákvæmileg aukning varð á losun vegna orkuframleiðslu vegna bilunar sem varð í sjóstreng Landsnets til Vestmannaeyja. Sá atburður krafðist óhjákvæmilega mikillar óhefðbundinnar keyrslu í kyndistöð og varaafli, sbr. umfjöllun um hitaveitu í Vestmannaeyjum. 

Vel hefur gengið þrátt fyrir fyrrgreindar áskoranir að efla öryggismenningu í fyrirtækinu og má segja starfsfólk almennt hafa góða öryggisvitund og skilning á mikilvægi þess að öryggismál séu ávalt höfð í forgrunni við ákvarðanatökur. 

Atvikaskráning starfsmanna

Haldin er skrá um slys og atvik sem verða hjá HS Veitum.

Tíðni vinnutengdra fjarveruslysa

Alþjóðlegir staðlar miða við 100 ársverk eða 200.000 unnar vinnustundir þegar tíðni fjarveruslysa er reiknuð 
Hér að neðan eru upplýsingar um hvernig slysatíðni er reiknuð og samanburður á slysatíðni hjá HS Veitum s.l. fimm ár  

Slysatíðni           S 
Staðall                200.000 
Unnar stundir     U 
Reikniregla         S x 200.000/U

Slysa- og atvikaskráning verktaka 
Fylgst er einnig með slysa og atvikaskráningu verktaka sem starfa á vegum HS Veitna, en verktökum er skylt að tilkynna slys/atvik sem verða til opinberra aðila. Slysatíðni  verktaka telur ekki í slysatíðni HS Veitna. Þetta árið var ekkert slys eða óhapp, tilkynnt af verktökum til HS Veitna. 

Starfsmannafélag HS Veitna

Arshatid 4

Starfsmannafélag HS Veitna var eins og undanfarin ár öflugt. Var skipulag árshátíðar helsta verkefni stjórnarinnar í upphafi árs. Nýr forstjóri tók til starfa í byrjun ársins og kynnti stjórnin fyrir honum það helsta sem félagið hefur verið með á dagskránni hingað til.  

Árshátíðin var svo haldin á Grand Hótel Reykjavík í byrjun mars þar sem starfsmenn ásamt mökum fjölmenntu og heppnaðist kvöldið vel. Félagarnir Jógvan og Friðrik Ómar stýrðu veislunni að sinni alkunnu snilld í gervi kvenna. Leikþáttur stjórnar var sýndur á tjaldi, happadrætti var stýrt af veislustjórum og Hljómsveitin Bland sá um dans sem dunaði fram á nótt. Þetta var síðasta árshátíðin sem haldin er á þessum tíma þar sem lögð var til breyting á tímasetningu árshátíðar með tilliti til veðurs sem oft er ekki gott í byrjun mars og verður hún framvegis haldin að hausti.

Aðalfundur starfsmannafélagsins var haldinn 19.apríl og fór hann fram með hefðbundnu sniði. Forsetinn Guðný Svava Friðriksdóttir og Signý Ósk Marinósdóttir gengu úr stjórninni og inn komu nýir stjórnarmenn. Ný stjórn skipaði Hermundur Sigurðsson forseti, Jóhanna María Pálsdóttir, Torfi Runólfur Þorbergsson, Marteinn G. Valdimarsson og Svanur G. Árnason.

Fyrsti viðburður nýrrar stjórnar var að halda fjölskyldudag í Húsdýragarðinum þann 14. maí.  Boðið var upp á aðgang í garðinn, skemmtipassa, grillaðar pulsur og gos.

Þann 31. ágúst buðu HS Veitur starfsmönnum og mökum í Ljósanætur partý og var matur í boði frá Soho og spilaði Kósíbandið ljúf lög fyrir gesti.

Haustgrill var haldið 6. október á Brekkkustíg. Grillvagninn mætti og henti upp dýrindis veislu, grillað lambalæri og meðlæti.  Jón Sig kom með gítarinn og hélt uppi stuði og dansi.
Jólahlaðborð HS Veitna var á Haust Restaurant á Fosshótel Reykjavík 2. des og var mjög góð mæting af öllum starfstöðum. Kósíbandið flutti jólalög.

Bústaðurinn í Kiðjabergi var vel nýttur og eru nær allar helgar uppbókaðar allt árið. Keypt var nýtt trampólín og var það fært fyrir framan húsið. Nýtt lok var keypt á heita pottinn og allt leirtau endurnýjað.

Stjórn starfsmannafélagsins þakkar fyrir sýndan stuðning frá stjórnendum fyrirtækisins og félagsmönnum.