Language
Söguágrip fyrir hvert ár í sögu fyrirtækisins Prenta  

Aðdragandinn
Á sjötta áratug 20. aldarinnar var þegar farið að ræða opinberlega um þá möguleika sem jarðhitinn gæfi Suðurnesjamönnum og nauðsyn þess að byggðarlögin sameinuðust um virkjun hans. Má geta þess að árið 1953 voru veittar á fjárhagsáætlun Keflavíkurbæjar 20.000 krónur til "Rannsóknar á möguleikum til Hitaveitu". Árin 1954 til 1956 nam síðan árlegt framlag til "Hitaveiturannsókna", samkvæmt fjárhagsáætlun, 30.000 krónum en 1957 var það lækkað í 15.000 krónur. Á bæjarstjórnarfundi í Keflavík 26. maí 1959 var kosin nefnd til að rannsaka möguleika á Hitaveitu í Keflavík. Hélt hún fyrsta fund sinn skömmu síðar, 8. júní. Síðar á árinu var einnig kjörin hitaveitunefnd í Njarðvík. Saman héldu nefndirnar fund með Gunnari Böðvarssyni, forstöðumanni Jarðborana ríkisins, og Þorbirni Karlssyni, verkfræðingi, sem Hitaveitunefnd Keflavíkur hafði ráðið til starfa áður. Áætlanir voru ennfremur gerðar á vegum varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli 1963, en þar voru borin saman tvö svæði, Reykjanes- og Stapafellssvæðið, en þar var gert ráð fyrir nægu heitu vatni með borun.

Árið 1969 ákvað sveitarstjórnin í Grindavík að láta rannsaka Svartsengissvæðið með tilliti til jarðhita, sem átti að beisla til húshitunar í Grindavík. Voru árin 1971 og 1972 boraðar tvær holur um 5 km norðan Grindavíkur, skammt frá Svartsengi. Þessar holur, sem voru 240 og 403 m djúpar, lofuðu mjög góðu en ollu um leið nokkrum vonbrigðum á þeim tíma, því þær leiddu meðal annars í ljós:

  1. að hér var um "há" hitasvæði að ræða, þ.e. að hiti var yfir 200° C undir 1.000 m dýpi og
  2. að vatnið sem kom úr holunum var salt, með um 2/3 af seltu sjávar.

Vegna seltunnar og hitastigsins var ljóst, að ekki var unnt að nýta vatnið beint eins og gert var í Reykjavík og víðast annars staðar, heldur varð að þróa varmaskiptaaðferðir til að nýta jarðhitann. Í janúar 1973 lauk Orkustofnun við frumáætlun um hitaveitu frá Svartsengissvæðinu. Niðurstöður þeirrar áætlunar voru mjög jákvæðar og gáfu tilefni til frekari rannsókna svæðisins og gerði Orkustofnun þá rannsóknaráætlun fyrir allt svæðið. Voru boraðar tvær holur, 1.713 og 1.519 metra djúpar og gerðar voru viðnámsmælingar til að ákvarða stærð "heita" svæðisins. Þær mælingar gáfu til kynna, að umfang "heita pottsins" á um 600 metra dýpi væri um það bil 400 ha, þó erfitt væri að ákvarða ytri mörkin af nákvæmni, því seltan í jarðvatninu í nánd við "heita pottinn" minnkaði viðnámið í jarðlögunum, ekki síður en hitastig vatnsins.

Stofnun HS
Á fundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum 10. september 1973 var samþykkt að kjósa þrjá menn úr stjórninni í nefnd til að undirbúa stofnun félags um byggingu og rekstur hitaveitu við Svartsengi. Hlaut hún nafnið Hitaveitunefnd Suðurnesja og voru í hana kjörnir Alfreð G. Alfreðsson, sveitarstjóri í Sandgerði, Eiríkur Alexandersson, sveitarstjóri í Grindavík og Jóhann Einvarðsson, bæjarstjóri í Keflavík. Hitaveitunefndin hófst þegar handa um könnun á hentugu félagsformi og í framhaldi af því var boðað til undirbúningsstofnfundar Hitaveitu Suðurnesja laugardaginn 15. desember 1973 í Félagsheimilinu Festi í Grindavík. Voru þar tilnefndir sjö menn í bráðabirgðastjórn en þann 17. janúar kaus bráðabirgðastjórnin þriggja manna framkvæmdastjórn sem í áttu sæti þeir sömu sem sátu í Hitaveitunefnd Suðurnesja. Í framhaldi af þessum undirbúningi var síðan gengið frá stofnun Hitaveitu Suðurnesja. Lög um hana voru samþykkt á Alþingi 18. desember 1974 og þau síðan staðfest af forseta Íslands 31. desember 1974 (Lög nr. 100 frá 31. desember 1974). Í 1. grein laganna segir svo:

"Tilgangur fyrirtækisins skal vera að virkja jarðhita í Svartsengi við Grindavík eða annars staðar á Reykjanesi ef hagkvæmt þykir, reisa þar varmaskiptastöðvar og leggja aðveituæðar til þéttbýliskjarna á Suðurnesjum, leggja dreifikerfi og annast sölu á heitu vatni til notenda. Hitaveita Suðurnesja skal reisa kyndistöðvar teljist slíkt nauðsynlegt vegna rekstraröryggis."

Við stofnun fyrirtækisins skiptust eignarhlutar í fyrirtækinu þannig að ríkissjóður átti 40%, það var aðili að fyrirtækinu m.a. vegna varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli sem einnig er á orkuveitusvæðinu. Og sveitarfélögin sjö, sem þá voru á svæðinu, 60% sem skiptust í samræmi við íbúafjölda þann 1. desember 1974.

Fyrsti stjórnarfundur Hitaveitunnar var haldinn 13. febrúar 1975 í Þórshamri. Stjórnarmenn frá sveitarfélögunum voru, svo sem fyrr segir, Alfreð Alfreðsson, sveitarstjóri í Sandgerði, Eiríkur Alexandersson, sveitarstjóri í Grindavík og Jóhann Einvarðsson, bæjarstjóri í Keflavík, sem jafnframt var kosinn formaður. Frá ríkissjóði komu í stjórnina Ólafur G. Einarsson, alþingismaður, tilnefndur af fjármálaráðherra og Þóroddur Th. Sigurðsson, vatnsveitustjóri, tilnefndur af iðnaðarráðherra.

Eitt af fyrstu verkefnunum var að tryggja land undir virkjun og aðrar framkvæmdir á svæðinu og jarðhita- og ferskvatnsréttindi. Hófust viðræður við landeigendur í janúar 1974 og lauk þeim með samningi þann 22. júlí 1975 þar sem kveðið var á um að gerðardómur skyldi ákveða gjald fyrir land- og jarðhitaréttindi. Gerðardómur lauk störfum í janúar 1976 og var það mat hans að greiða skyldi 87,7 milljónir króna (gamlar) fyrir réttindin, að núvirði (1999) um 95 milljónir króna.

Lokafundur stjórnar Hitaveitunnar og samningamanna landeigenda með lögmönnum beggja var haldinn miðvikudagskvöldið 25. júní í Iðnskóla Suðurnesja í Keflavík. Að sögn Alfreðs Alfreðssonar, sveitarstjóra í Sandgerði og stjórnarmanns Hitaveitunnar, voru samninganefndirnar hvor í sinni stofu sín í hvorum enda skólans en lögmennirnir í miðstofunum og báru þeir tillögur og gagntillögur á milli nefndanna. Gekk þetta þannig allt kvöldið og fram á nótt en sífellt leið lengra á milli tillagna frá öðrum hópnum og biðtími hins lengdist samsvarandi. Tekið skal fram, að allir samningamenn höfðu í upphafi verið sammála um að fundi yrði ekki slitið fyrr en samningar lægju fyrir, jafnvel þótt það tæki alla vikuna. Hitaveitumenn gerðu sitthvað til að stytta sér biðtímann. Og Alfreð heldur áfram:

"Því var það engin furða þó að unglingar, sem leið áttu framhjá skólanum um tvöleytið um nóttina, yrðu forvitnir við að sjá skólann uppljómaðan á þessum tíma sólarhrings. Og ekki varð undrun þeirra minni við það, sem fyrir augu þeirra bar, er þeir guðuðu á glugga í stofunni sem við, Hitaveitumenn, vorum í. Á gólfinu sáu þeir fjóra fullorðna menn, snöggklædda, á fjórum fótum í peningastykki, þ.e.a.s. einn af þingmönnum kjördæmisins, bæjarstjórana í Keflavík og Grindavík og svo undirritaðan. Úti í einu horni stofunnar stóð svo vatnsveitustjórinn í Reykjavík á höfði, með hendurnar í vösum, í afslappandi jógastellingu. Unglingarnir trúðu vart sínum eigin augum. Hverskonar samkunda var þetta nú eiginlega? Þvílíkt og annað eins! Fyrirmenn, skríðandi á fjórum fótum og standandi á haus um miðja nótt. Og svo er verið að hneykslast á unglingunum! Ja - þeim ferst! Ekki gerðum við tilraun til neinna útskýringa þegar við urðum varir við unglingana á glugganum enda hefði það eflaust orðið erfitt. Unglingarnir fóru sína leið í forundran á þessum geggjuðu köllum og við lukum að lokum við samningana seinna um nóttina og sluppum þar með við svefnpoka og skrínukost."Klukkan hálffjögur um nóttina höfðu samningamenn svo loks náð samkomulagi um að vísa ákvörðun um andvirði lands og landréttinda til gerðardóms, svo sem fyrr segir.

Sækja um aðgang
Kennitala:
Tölvupóstur:
Sími:
Fá lykilorð í bréfpósti:

Umsókn um aðgang

Þegar þú hefur skilað inn kennitölu, netfangi og símanúmeri munum við senda til þín bréf í pósti með lykilorði en notendanafnið þitt er kennitalan þín.
Nýtt lykilorð
Kennitala:

Tapað lykilorð

Ef þú hefur glatað lykilorðinu þínu geturðu fengið nýtt sent í tölvupósti með því að slá inn kennitöluna þína og smella á Sækja um nýtt lykilorð.
Mín síða
Kennitala:
Lykilorð:

Innskráning á mína síðu

Hér getur þú skráð þig inn og skoðað yfirlit yfir notkun þína á rafmagni og vatni.